Starfsnemar frá Hálskólanum í Toulon í Frakklandi hafa lokið starfsnámi við Háskólasetrið sem hefur staðið frá miðjum apríl sl. Nemarnir unnu við útfærslu á leiðum við að hagnýta gögn frá Copernicus stofnuninni. Gögnin voru opin líkana- og mæligögn um hreyfingar í hafísbreiðunni, veður- og hafgögn ásamt lífefnagögnum um frumframleiðni í hafinu. Viðfangsefnin voru af tvennum toga og fjölluðu um ástand í hafinu annars vegar og áhrif vinda og strauma á hafísrek í Pólhafinu og unnu nemarnir það í tveimur hópum.
Í fyrri hópnum var unnið að því að grundvalla framsetningu sem gerir notendum fært að glöggva sig á samspili og breytileika á dreifingu sjógerða (ss. Grænlandshafsjór, Atlantshafssjór og Heimskautasjór) og hvernig samspili frumframleiðni í hafinu er háttað á hverjum tíma. Frumframleiðni (ljósáta og rauðáta) í hafinu hefur áhrif á loðnu- og síldargöngur og nýliðun í stofnum botnfiska á vorin. Ennfremur var unnið að framsetningu ölduspágagna til að notendur geti greint í sundur þætti vinds, öldu og undiröldu á hverjum tíma og nýtt sér þá við að velja leið og siglingartíma við heppilegustu aðstæður þegar bræla gengur hjá.
Hinn hópurinn vann að því að þróa reiknirit til að túlka gervitunglamælingar á hnikunum (líkt og í jarðskorpunni og sprungusveimum í skriðjöklum) þar sem stefnur þeirra og bogaform gefa upplýsingar um þrýsting og brotakrafta í hafísbreiðunni þegar hafísinn rekur fyrir áhrifum vinda og strauma og rekst á strendur Pólhafsins. Þessar nýju aðferðir við túlkun gerfitunglagagna er nýnæmi í hafísrannsóknum og hefur umbreytandi þýðingu fyrir reiknilíkön sem fjalla um víxlverkun hafs og lofthjúps yfir hafísbreiðunni í Pólhafinu. Með þessum gögnum má mæla beint með radar í gervitunglum þætti er ráða því hvaða gerðir hafíss (og þykkt gerða fjölvetrungs og/eða veturgamals íss) rekur út af Pólsvæðunum og bráðnar og áhrif kælingar suður á bóginn í yfirborðslögum sjávar.