Á morgun hefst námskeiðið íslenskt samfélag og náttúra, hjá Háskólasetri Vestfjarða. Námskeiðið fjallar um samhengi samfélags, stjórnmála, sögu, efnahags, umhverfis og náttúruauðlinda á Íslandi, bæði á landi og á hafi. Á námskeiðinu er áhersla er lögð á að kanna alþjóðlega ímynd Íslands í tengslum við umhverfi og náttúruauðlindir, sem felur meðal annars í sér hvernig náttúra landsins tengist sjálfsmynd nútíma Íslendings, náttúru sem uppsprettu þjóðernishyggju, og hvernig það hefur birst í umræðu og stefnumótun varðandi nýtingu og verndun náttúruauðlinda.
Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist almenna þekkingu á íslensku samfélagi og umhverfi og getu til að greina hvernig íslensk menning og saga tengjast alþjóðlegri ímynd Íslands í tengslum við umhverfismál. Jafnframt að nemendur öðlist getu til að meta samtímamálefni sem tengjast íslensku samfélagi og umhverfi í þverfaglegu samhengi.
Kennari námskeiðsins er Íris Hrund Halldórsdóttur, en hún vinnur að rannsóknum á sviði ferðamála með áherslu á tengsl þeirra við samfélög og náttúru í dreifbýli. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum rannsóknarverkefnum, starfað sem sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð ferðamála og aðjúnkt í land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Hún hefur reynslu af kennslu og námskeiðahaldi, er með M.Sc. í ferðamálafræði við HÍ og er doktorsnemi í landfræði við Háskóla Íslands. Íris Hrund er fædd og uppalin á norðanverðum Vestfjörðum og mætti því kalla heimamann.
Við minnum á að öll meistaranámskeið sem kennd eru við Háskólasetur Vestfjarða eru opin þátttakendum jafnt frá háskólum sem atvinnulífi. Hafir þú áhuga á að sækja stök námskeið hjá Háskólasetri getur þú kynnt þér kennsluskrána okkar og möguleika á að taka stök meistaranámskeið.