Námskeið um siðferði manna varðandi verndun og auðlindanýtingu

Dagana 6. – 21. október er kennt hjá Háskólasetri Vestfjarða námskeiðið Siðferði manna varðandi verndun og auðlindanýtingu.

Að vinna á sviði auðlindastjórnunar og þróunar þýðir að oft þarf að takast erfiðar ákvarðanir þegar leitast er við að finna jafnvægi milli verndunar og nýtingar náttúruauðlinda og áskorana á borð við loftslagsbreytingar, tap líffræðilegs fjölbreytileika, verndun réttinda frumbyggja, eflingu umhverfisréttlætis og að tryggja heilbrigt efnahagslíf. Þeir sem koma að ákvarðanatöku og nýtingu auðlinda hafa gjarnan mismunandi forgangsröðun og siðferðisleg gildi, sem getur leitt til umdeildra ákvarðana sem hafa í för með sér langtímaáhrif.
Á þessu námskeiði verður nemendum gefið yfirlit yfir fjölbreytt svið umhverfissiðfræði sem geta nýst við ákvarðanatöku og stjórnun þessara mikilvægu auðlinda. Einnig eru nemendum kynntar hagnýtar aðferðir og dæmi um hvernig beita má siðferðilegum nálgunum í framkvæmd. Sérstök áhersla verður lögð á ýmis úrræði og tilviksrannsóknir sem tengjast strandsvæðum og sjávarauðlindum.

Kennari námskeiðsins er Dr. Marie Schellens, umhverfissérfræðingur hjá friðaruppbyggingarsamtökunum PAX í Hollandi, þar sem hún fylgist með umhverfisspjöllum sem hafa áhrif á líf og lífsviðurværi fólks á átakasvæðum. Til þess notar hún jarðathuganir og landupplýsingagreiningu í samstarfi við viðkomandi samfélög. Hún rannsakar víðtæk tengsl milli umhverfisspjalla, loftslagskreppu og átaka til að styrkja alþjóðleg viðmið og stefnu á þessu sviði og styður við samþættingu umhverfisverkefna í friðarvinnu.

Áður en hún gekk til liðs við PAX starfaði hún sem sérfræðingur í umhverfisöryggismálum hjá Umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna (UNEP). Hún samræmdi þróun Strata, vefgrunns til kortlagningar, sem auðveldar verkefnastjórum, greiningaraðilum og stefnumótendum að samþætta gögn um loftslagsöryggi í daglegu starfi. Frá 2016 til 2020 var hún Marie Curie-doktorsnemi við Stokkhólmsháskóla og Háskóla Íslands þar sem hún rannsakaði hlutverk náttúruauðlinda í átakahættu. Hún hefur lokið MSc-gráðu í landafræði frá KU Leuven og Frjálsa háskólanum í Brussel (Belgía, 2015).

Frekari upplýsingar um námskeiðið má finna hér.

Öll meistaranámskeið sem kennd eru við Háskólasetur eru opin gestanemum, skiptinemum og fólki úr atvinnulífinu og eru hluti af tveimur alþjóðlegum þverfaglegum meistaranámsleiðum, haf- og strandsvæðastjórnun, og sjávarbyggðarfræði.