ISLAs sumarskóli hjá HV

Dagana 28. júní til 6. júlí kom alþjóðlegur hópur nemenda og rannsakenda til Háskólaseturs Vestfjarða (HV) til að taka þátt í ISLAs sumarnámskeiði 2025 – Islands as Laboratories for Sustainability, eða „eyjar sem rannsóknarstofa sjálfbærrar þróunar“.

Námskeiðið er samstarfsverkefni HÍ, HV og Háskólans í Groningen, sem leiðir sameiginlegt Erasmus Mundus meistaranám í eyjum og sjálfbærni sem kallast á ensku “ISLAs”. Kennarar námskeiðsins eru prófessor Benjamin Hennig við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ, dr. Matthias Kokorsch, fagstjóri meistaranáms hjá HV, og prófessor Dimitris Ballas við Landfræðideild Háskólans í Groningen.

Aðalþema námskeiðsins í ár var Umbreytingar í afskekktum samfélögum þar sem fjallað var um hvernig eyjasamfélög og fámennar byggðir takast á við nútímaáskoranir í tengslum við sjálfbærni, samfélagsbreytingar og menningarlega aðlögun. Vestfirðir eru kjörinn staður til að rannsaka þessi málefni þar sem svæðið er einstakt að mörgu leyti og hefur verið dreifbýlt lengi. Á svæðinu má finna mörg afskekkt lítil þorp og stórbrotna náttúran skemmir ekki fyrir.

Höfuðstöðvar námskeiðsins voru á Ísafirði, í HV, þar sem þátttakendur sátu fyrirlestra en svo var farið í margar vettvangsferðir í nærliggjandi þorp og bæi þar sem fyrirlestrar áttu sér oft stað utandyra. Fjallað var meðal annars um samfélagslega þróun, umhverfisbreytingar og menningarlega seiglu. Markmiðið var að auka skilning nemenda á því hvernig afskekkt samfélög aðlagast hröðum breytingum.

ISLAs meistaranámið byggir á þeirri hugmynd að eyjar séu kjörnar rannsóknarstofur til að skoða umbreytingar í átt að sjálfbærni. Landafræðileg einangrun þeirra og mikil samheldni í samfélaginu gefur dýrmæta innsýn í hvernig samfélög bregðast við vistfræðilegum og efnahagslegum áskorunum.

Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs á komandi árum og vonumst til að halda áfram að bjóða fjölbreyttum hópi alþjóðlegra nemenda einstaka innsýn í líf og áskoranir í fámennum eyjasamfélögum.