Háskólahátíð 2024

Háskólahátíð fór fram á Hrafnseyri á þjóðhátíðardaginn 17 júní í afar fallegu veðri. Eins og öll árin áður var háskólahátíð hluti af hátíðardagskrá á Hrafnseyri. Að venju var kökuhlaðborð og súpa, tónlistaratriði og ræður frá fyrrverandi nemendum Háskólaseturs hlutur af dagskrá dagsins. Útskriftarnemar fengu skírteini afhent frá Eyjólfi Guðmundssyni, rektor Háskólans á Akureyri. Þeir fengu einnig prjónaða skotthúfu í þjóðlegum stíl ásamt trjáplöntu sem nemendur gróðursettu í brekkunni seinna. Hér fyrir neðan má lesa ávarp forstöðumanns Háskólasetur Vestfjarða og sjá myndir frá deginum:

"Ágætu útskriftarnemar, ágætu gestir

Ungt fólk að útskrifast úr námi hjá Háskólasetri. Og ég hugsa til baka um 30 ár, til baka til Kílarháskóla þar sem ég var í námi, til baka til konu, sem krossaði minn veg þar. Hún hét Frau Teufel, frú djöfull, sem merkir þó ekkert meira og dýpra en að vera Hrefnusonur eða Arnardóttir.

Frú Teufel starfaði í sérstakri nemendaskrá þar sem maður skráði sig fyrir lokaprófin og útskrift. Ég skráði mig í tveim námsleiðum á sömu önn. En þar leyndist ljón í veginum og frú Teufel var talsmaður ljónsins: "Nei það gengur ekki. Þetta er háskólapróf annars vegar og ríkispróf hins vegar. Þessi kerfi tala ekki saman. Þér gætuð lent í því að prófin lenda jafnvel á sama dag! Þetta er ekkert samræmt. Þetta hefur aldrei komið fyrir."

Ég tók áhættuna, hreint og beint af fjárhagsástæðum, enda námslánin bara fram að fyrsta prófi.

Ég var í töluverðum samskiptum við Frau Teufel á tímabili, undirskriftir, staðfestingar, vottorð, fyrir hvert einasta námskeið, allt á pappír sjálfsagt á þeim tíma. Á einhverjum tímapunkti sagði ég við hana að þetta kerfi gerir manni ekki beinlínis auðvelt fyrir.

Hennar svar hef ég geymt og borið með mér síðan: Hún benti mér á að kerfið sé ekki gert fyrir undantekningar (hún átti við: sérvitringa). Og bætti svo við "Burtséð frá því: Háskóli er til þess að undirbúa yður fyrir lífið. Og lífið, það er miklu flóknara en námið. Þá fyrst byrjar ballið. Ef þér komist í gegnum það hér, þá eruð þér undirbúinn undir flest hitt."

Og hún hafði rétt fyrir sér.

Nemendur sem hafa farið í gegnum námið hjá Háskólasetri starfa í mjög svo áhugaverðum störfum og ég spyr mig stundum, hvernig í alverden hafa þau lært allt þetta, hvernig og hvenær urðu þau að þeim snjöllum, traustum einstaklingum sem þau eru.

"Ef þér komist í gegnum það hér, þá eruð þér undirbúinn undir flest hitt."

Námsmenn hjá Háskólasetri þurfa að skipuleggja lífið sitt sjálf. Vegabréfsáritun, dvalarleyfisumsókn, atvinna í öðru landi, skattkerfið, leigusamningur, mismunandi stundakennarar, hópdínamík ...

"Og lífið, það er miklu flóknara en námið."

Háskólasetrið er ekki Study abroad programme. Það er ekki campus university. Það er ekki og vill ekki vera búbbla sem er ekki í sambandi við umheiminn. Háskóli má ekki vera bergmálshellir.

Háskóli á að opna augu og hug manna fyrir nýjungum. Háskólinn þarf ekki og á ekki að leysa einkamálin. Háskóli á að spyrja spurningar og kenna hvernig á að leysa málin. Vinnuveitendur virðast kunna að meta það. Með það í huga hefðum við kannski ekki átt að reisa nemendagarða.

En sjálfsagt eru kerfi ekki til að gera manni erfitt, bara út af því. Stjórnsýslan á sjálfsagt að þjónusta fólkið, ekki öfugt. Að sjálfsögðu krefjumst við þess að farið verði eftir settum reglum. En það eru aldrei reglur fyrir allt, t.d. ekki þegar sérvitringur vill taka lokapróf í tveim námsleiðum á sömu önn.

Prófin mín mörg rákust ekki á. Ég hef stundum spurt mig síðan hvort frú Teufel hafi þar haft ósýnilega hönd í bagga með mér. Hún þurfti þess ekki. En stjórnsýslur geta liðkað fyrir, það er ekki bannað.

Eftir á að hyggja var frú Teufel einn af þeim englum sem varða veg manns í gegnum lífið. Vissulega var hún talsmaður ljónsins í veginum, vissulega var hún fulltrúi leiðinlegs kerfis, en hún gerði það sem hún gat með því að upplýsa , leiðbeina og hjálpa.

Við verðum oft ekki vör við slíka engla, þeir koma ekki til móts við okkur með vængjum og gyllt hár, þeir kunna að vera gamlir, fúlir, bera ljót nöfn – eins og raun ber vitni. Þeir leynast alls staðar.

Þegar þið farið nú út í lífið, þá fyrst byrjar ballið. Höfum augun opin, til að finna þá sem ég kalla földu engla. Það kann að vera erfitt að þakka talsmanni ljónsins í veginum, en hver veit nema talsmaður ljónsins vill okkur vel.

Þið munið sjálf vinna í slíkum kerfum, heimurinn er fullur af þeim. Ekki segja Computer says no. Reynið að gera betur. Stjornsýslur geta liðkað fyrir, það er ekki bannað.

Orð dagsins er út guðspjalli Matteusar: Eða hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð? Mt 7, 9

Ég vona að þið hafið í námi ykkar fengið brauð, ekki steina. Gott veganesti. En ég vona þó líka að þið hafið kljást við ýmis kerfi og fengið aðstoð til að sigra þau. Fyrst þér hafið komist í gegnum það hér, þá ættuð þér að vera undirbúin undir flest hitt."

Og ég vona að þið fáið – og sjáið – tækifæri að hjálpa öðrum að sigra á kerfunum ljótu, að þið gefið brauð, ekki steina.

Peter Weiss, Háskólasetri Vestfjarða
í tilefni háskólahátíðar
Hrafnseyri, 17.06.2024