Fyrsti des, fullveldisdagurinn, er fyrrum þjóðhátíðardagur Íslendinga. Þann 1. desember 1918 tóku Sambandslögin gildi, milli Íslands og Danmerkur, og í þeim mátti finna viðurkenningu Dana á því að Ísland væri fullvalda ríki. Dagurinn varð þó ekki að þjóðhátíðardegi þegar í stað, en með tímanum varð það svo, og entist fram að lýðveldistíma.
Háskólastúdentar hófu hátíðarhöld á fullveldisdaginn á fyrstu árum þriðja áratugarins og héldu í þá hefð eftir lýðveldisstofnun. Það er afar viðeigandi að stúdentar hafi valið sér þennan dag til hátíðarhalda, enda voru námsmenn á Regensen í Kaupmannahöfn mestu boðberar nýjunga þess tíma: Stjórnarskrár, verslunarfrelsis og kosningarréttar. Alla nítjándu öldina börðust menn fyrir þessum markmiðum og, í sömu andrá, heimastjórn og sjálfstæði, og gengu háskólastúdentar í broddi fylkingar þegar kom að þessum baráttumálum.
Nú taka Háskólasetur Vestfjarða og Guðni Th. Jóhannesson prófessor í nafni Jóns Sigurðssonar og forseti Íslands 2016-2024, höndum saman og blása lífi í þessa ágætu hefð, og bjóðum ykkur öll velkomin að taka þátt í henni með okkur!
Guðni Th. Jóhannesson er prófessor í sagnfræði og því tilvalinn til að rifja upp fyrir okkur merkingu þessa dags og túlka hana í nútíð. Í tilefni dagsins verður því í boði Vísindaport á mánudegi, þar sem Guðni Th. Jóhannesson mun velta fyrir sér (og áheyrendum) hvort við skiptum eiginlega máli, hvort Ísland hafi áhrif á alþjóðavettvangi. Á íslensku. Eftir hádegi mun Guðni Th. Jóhannesson svo brýna fyrir nemendum hvað þurfi eiginlega að vita úr sögu Íslands til þess að verða Íslendingur. Þessi fyrirlestur er á ensku en er opinn öllum.
Þó við viljum minnast þessa dags og þeirrar 19. aldar baráttu sem varð til þess að hann varð gleðidagur Íslendinga, megum við ekki gleyma að gera eins og námsmenn hafa ávallt gert: Nota hvert tækifæri að gera sér glaðan dag – og húllumhæ.
Kl. 15:00 er boðið til samkomu í Háskólasetri, með stuttu ávarpi, spurningarkeppni i anda dagsins og léttum veitingum. Þar sem hittir svo á að dagurinn er líka stjórnarskrárdagur Bæjaralands má vænta þess að nokkrar alþjóðlegar spurningar verði í bland, so everybody has a chance to win!
Dagskrá
Guðni Th Jóhannesson: Skiptum við máli? Áhrif Íslands á alþjóðavettvangi. (Eins-og-)Vísindaport, nema á mánudegi. Á íslensku.
Guðni Th Jóhannesson: What do you need to know about Iceland’s history to become an Icelander
Opið almenningi. Á ensku.
Barsvar. Léttar veitingar. Lokapunktur afmælisárs Háskólaseturs.
Hlekkur á viðburðinn á Facebook
Öll dagskrá opin öllum bæjarbúum, verið hjartanlega velkomin að njóta dagsins með okkur í Háskólasetri!