Það má segja að framhald hafi verið á frönskum dögum hjá Háskólasetri Vestfjarða, því það voru fleiri frönskumælandi gestir sem heimsóttu HV á dögunum, auk David Didier og samstarfsfólks hans og nemenda frá Université du Quebeq á Rimouski komu og þrír kennarar frá Lýcée de la mer, eða Fjölbrautarskóla Hafsins upp á íslensku, sem staðsettur er í Sète við Montpellier, við miðjarðarhafsströnd Frakklands. Heimsóknir sem þessar sýna hve umfangsmikið samstarfs- og tenglsanet Háskólaseturs er orðið.
Hópurinn frá Lycée de la mer Paul Bousquet í Suður-Frakklandi kom hingað til lands til að heimsækja væði Menntaskólann á Ísafirði og Háskólasettur. Þau tengjast Ísafirði í gegnum HV í gegnum evrópskt samstarfsnet um lagareldi. Þar fara Sophie Poch aðstoðarrektor (deputy director), Sylvie Mimosa líffræðikennari og Olivier Rocher f.h. alþjóðadeild skólans.
Frakkar eru með áhugavert kerfi í starfsmenntun, en þar fléttast sérhæfðir fjölbrautaskólar og undirbúningsnám á háskólastigi og bakkalárnám meira saman. Hjá Lycée de la mer, Fjölbrautarskóla Hafsins, eru í boði starfstengdar námsleiðir á fjölbrautaskólastigi eins og þriggja ára sérhæft stúdentspróf í t.d. fiskveiðum, sjávartengdri rafmagnsverkfræði, snekkjubátaútgerð og sjórækt, en líka, skrefi lengra í átt að háskólanámi, tveggja ára BTSM/BTSA námsleiðir með sérhæfingu á lagareldi annars vegar og á sjávarútveg og sjávartengda umhverfisstjórnun hins vegar. Töluverður þáttur kennslunnar í lagareldisnámi þeirra er fólginn í starfsnámi í fyrirtækjum og þau telja að nemendur sínir gætu lært töluvert mikið af starfsnámi hjá fyrirtækjunum hér á svæðinu.
Einn úr hópnum, Olivier Rocher, veitti okkur svo þann heiður að sjá um vísindaport síðastliðinn föstuda þar sem hann kynnti Lycée de la mer, Fjölbrautarskóla Hafsins, fyrir áheyrendum og sagði frá þátttöku hennar í evrópskum áætlunum sem miða að því að virkja nemendur og þátttakendur í alþjóðlegu námi og þjálfun. Olivier hefur starfað sem enskukennari í 24 ár, fyrst í landbúnaðarskóla og síðan við sjávarútvegsskólann í Sète frá september 2024. Hann hefur jafnframt umsjón með alþjóðamálum skólans. Olivier lærði ensku og ítölsku við háskólann í Toulouse og lauk meistaragráðu í ensku. Hann hefur einnig verið virkur þátttakandi í Eurovision söngvakeppninni frá árinu 2014, meðal annars sem blaðamaður og þýðandi. Það er óhætt að segja að gestir vísindaports hafi verið áhugasamir um starfsemi Lycée de la mer, og spurðu þeir Olivier og samstarfsfólk hans spjörunum úr.
Það má segja að heimsókn þeirra hafi tekist vel, þau styrktu tengsl sín við Háskólasetrið og byggðu upp tengsl við MÍ og nýja sjávartengdri námsbraut þar á bæ. Auk þess að tryggja tveimur nemendum pláss í verknámi á Ísafirði, skoðuðu þau fiskeldisfyrirtæki og aðstöðu þar. Ekki spillti fyrir að selir og andarnefjur léku sér í sjónum.
Í heimsóknum undanfarinna daga má segja að Vestfirðir hafi gegnt því hlutverki að vera brú til landsins og brú milli álfa, þar sem Frakkar og Kanadamenn hittust.