Víslenska

Víslenska

Víslenska er verkefni hjá Háskólasetrinu sem snýr að því að halda íslenskunámskeið fyrir erlenda vísindamenn á Íslandi með því markmiði að auka vísindalegan orðaforða og samskiptafærni þeirra og stuðla í leiðinni að aukinni faglegri íslenskunotkun.

Fjöldi erlendra rannsakenda, vísindamanna og sérfræðinga starfa hjá íslenskum háskólum, vinnustöðum eða rannsóknastofum, og fer þeim hópi stækkandi. Í almennri íslenskukennslu er lögð áhersla á grunninn í tungumálinu en oft er gert ráð fyrir því að sérstök orð í tengslum við atvinnu eða einstaka fræðigreinar séu lærð í gegnum vinnustaðinn eða að einstaklingar tileinki sér þau sjálfir. Vegna vinnuálags innan rannsóknarumhverfisins og vegna þess að enska er gjarnan álitið vera hið alþjóðlega vísindamál, skortir erlenda vísindamenn þá íslenskukunnáttu sem þarf til að geta tekið þátt í vísindalegri umræðu og stefnumótun. Sem dæmi má nefna að vísindamaður með doktorsgráðu gæti ekki tjáð sig á íslensku á þann hátt sem ætlast er til af Íslendingi með doktorsgráðu sem getur hamlað starfsframa.

Aukin fagleg íslenskukunnátta er ekki aðeins til hagsbóta fyrir einstaklinginn sjálfann, heldur einnig fyrir íslenskt samfélag. Vegna sérfræðiþekkingar sinnar eru þessir einstaklingar auður fyrir íslenskt samfélag.

Óskað er eftir tvenns konar þátttakendum fyrir þetta spennandi verkefni.

  • Erlendir rannsakendur, vísindamenn eða sérfræðingar með B1/B2 í íslensku sem vilja auka færni sína í að tjá sig í ræðu og riti á íslensku. Námskeiðið er þeim að kostnaðarlausu.
  • Rannsakendur, vísindamenn eða sérfræðingar með íslensku að móðurmáli í hlutverki leiðbeinanda eða kennara sem munu fá greitt fyrir vinnu sína.

Um námskeiðið:

Þátttakendur munu taka þátt í námskeiði þar sem þeir fá kennslu og þjálfun frá íslenskumælandi einstaklingum með sambærilega menntun eða starfsreynslu og þátttakendur sjálfir. Námskeiðið mun taka um 40-50 klukkustundir þar sem áhersla verður lögð á munnlega og skriflega íslensku og í lok námskeiðsins munu þátttakendur flytja stuttan fyrirlestur á ráðstefnu í Reykjavík um sitt starf eða nám á íslensku.

Eftir námskeiðið munu þátttakendur (í hlutverki nemenda) hafa:

  • Tekið þátt í umræðum um þau íslensku orð sem eru notuð á sínu rannsóknarsviði.
  • Skrifað ítarlegan útdrátt af rannsókn sinni eða starfi á íslensku.
  • Æft sig í að miðla rannsóknum sínum munnlega, bæði til almennings og innan vísindasamfélagsins.
  • Undirbúið kynningu á íslensku um rannsókn sína eða starf og flutt stuttan fyrirlestur á íslensku.

 

Byrjað verður á hópumræðum þar sem nemendur og leiðbeinendur ræða hugtök og hugmyndir sín á milli. Hlutverk leiðbeinenda er að taka þátt í umræðum og fara yfir skriflegt efni sem nemendur útbúa. Allt námskeiðið verður á netinu, nema ráðstefnan sjálf sem verður haldin í Reykjavík í mars/apríl 2024, nánari dagsetning verður tilkynnt síðar.

 

Áhugasamir geta haft samband við Catherine Chambers, rannsóknarstjóra Háskólaseturs Vestfjarða cat@uw.is