Crash Course

Beginners A1

Háskólasetrið býður upp á stíft og nokkuð fjölbreytt A1 vikunámskeið. Tímafjöldi er um það bil 35 kennslustundir (45 mínútur hver kennslustund). Námskeiðið er kennt á vorin og sumrin og hentar vel sem undirbúningur fyrir frekara íslenskunám en er jafnframt þannig sett upp að það gagnast fólki svo að það getur strax byrjað að nota íslensku. Lykilatriði í að læra tungumál er að nota það.

Námskeiðsgjaldið er 55.000 kr. en nemendur Háskólaseturs Vestfjarða og háskólanemendur í háskólum á Íslandi (með íslenska kennitölu) fá námskeiðið á afslætti. Frekari upplýsingar má fá með því að hafa samband.

Í námskeiðinu er lögð áhersla á hversdagsorðaforða og einfalda og praktíska málfræði sem krefst ekki mikillar kunnáttu í málfræði. Einnig er unnið með framburð, lestur og hlustun á einfaldan hátt. Kennarinn notar glærur sem hann deilir með nemendum. Nemendur fá einnig kennsluhefti sem er sérstaklega gert fyrir A1 námskeiðið, ásamt hljóðskrám.

Engrar formlegrar þekkingar er krafist en nemendum er bent á að hægt er að undirbúa sig í gegnum Icelandic Online sér að kostnaðarlausu.

Námskeiðslýsing

A1 vikunámskeið Háskólaseturs tekur mið af evrópska tungumálarammanum eins og öll íslenskunámskeið Háskólaseturs og er stíft og nokkuð fjölbreytt námskeið þar sem áhersla er lögð á praktíska notkun málsins.

Reynt er að kenna efni sem gagnast við hversdagslegar aðstæður eins og þegar fólk pantar mat og drykk og eða tjáir sig um veðrið í heita pottinum.

Sú málfræði sem er kennd hefur sama viðmið, er einföld og praktísk og frekar auðveld að læra. Einnig fá nemendur nasasjón af íslenskri menningu.

Kennarar

Eiríkur Sturla Ólafsson (f. 1976 í Reykjavík) er með BA-gráðu í þýsku og sagnfræði sem og MA-gráðu í þýðingafræði, og lauk námi 2005. Hann lærði í Reykjavík, Köln og Berlín.

Hann er dulítill nörd þegar kemur að tungumálum og þá sérstaklega málfræði, og hefur sérstakan áhuga á latínu, þýsku, íslensku (nema hvað), japönsku og orðsifjafræði.

Eiríkur (eða Eiki eins og flestir kalla hann) hefur kennt íslensku sem erlent mál síðan 2007 þegar hann byrjaði að kenna í Zürich í Sviss. Eftir að hafa kennt í Berlín í 6 ár, flutti hann sig um set til Kína og hefur kennt þar við Beijing-háskóla erlendra fræða síðastliðin 8 ár, en þó með hléum undanfarið vegna heimsfaraldursins. Það er þó að breytast til batnaðar.

Eiki hefur gert eitt og annað meðfram kennslustörfum sínum, stundað íþróttir, ferðablaðamennsku, þýðingar og skrif. Hans aðaláhugamál eru ferðalög og kennslan er það sömuleiðis. Hann tekur sundferðir sínar afar alvarlega og skilur ekki landa sína sem hanga bara í heita pottinum í stað þess að taka góðan sprett í lauginni.

Marc Daníel Skipstað Volhardt er málvísindamaður frá HÍ en hefur líka stundað nám við Kaupmannahafnarháskóla í Danmörku og Háskólann í Tromsø í Noregi, sérsvið hans er hljóðfræði, hljóðkerfisfræði, Norðurlönd og Norðurlandamál, mállýskur, frumbyggjamál og hefur hann meðal annars stundað rannsóknir í Mexíkó á málinu otomí. Hann Kennir íslensku sem annað mál, dönsku sem annað mál, skandinavísk fræði ásamt almennum málvísindum við HÍ

Í frístundum sínum hefur hann gaman af ferðalögum, ljósmyndun, náttúru og finnst best að fá sér uppáhellt brúsakaffi á bensínstöð.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson Ólafur Guðsteinn Kristjánsson hefur umtalsverða reynslu af því að kenna íslensku sem annað mál og hefur kennt við marga skóla og stofnanir í gegnum tíðina. Frá árinu 2010 hefur hann kennt íslensku við Háskólasetur Vestfjarða auk þess sem hann hefur kennt fyrir SIT vettvangskólann síðan 2014. Þar að auki kennir hann íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands og er, um þessar mundir, umsjónarmaður íslenskunámskeiða Háskólaseturs.

Hann er áhugasamur kennari sem hugnast vel forvitnir nemendur og vel fær um að útskýra allt milli himins og jarðar hvort sem það eru óreglulegar sagnir eða íslensk tónlist.