Í heild standa 48 aðilar að sjálfseignarstofnuninni Háskólasetri, 42 stofnaðilar og 6 nýir aðilar. Stofnaðilar eru stofnanir og fyrirtæki sem tengjast í víðum skilningi rannsóknum og þróun á Vestfjörðum.

Háskólasetur er ekki með fastráðna kennara, en í staðinn koma árlega yfir 40 stundakennarar sem kenna lotunámskeið. Margir þeirra koma endurtekið, 25 kennarar hafa kennt 65% kennslumagns (tölur frá 2020) og hin 35% skiptust á 77 stundakennara. Að auki hafa um 250 leiðbeinendur sinnt lokaritgerðum, flestir þeirra utan stofnunarinnar. Þannig má sjá að myndast hefur þétt tengslanet í kennslu og mannauði. Þá má ekki gleyma vaxandi rannsóknarvirkni starfsfólks Háskólaseturs, sér í lagi fagstjóra og rannsóknarstjóra og myndast þannig gott tengslanet rannsóknarverkefna, sem aftur fléttast stundum saman við tengslanet kennslunnar og því verða tengipunktarnir fjölmargir.

UW og HA

Háskólinn á Akureyri er einn af 42 stofnaðilum Háskólaseturs. HA nýtur þó sérstöðu að mörgu leyti, annars vegar hefur HA lengi verið leiðandi á sviði fjarnáms á Íslandi, en Háskólasetur er jafnframt fjarnámsmiðstöð Vestfirðinga. Hins vegar hefur HA fengist við að fullgilda meistaranámið hjá Háskólasetri sem vissulega þróar þó námsleiðirnar sjálft og miðast efnisval og skipulag námsins við skilyrði Háskólaseturs. Í kjölfarið hefur Háskólasetrið gert samning við Háskólann á Akureyri um fullgildingu. Fyrsti samningurinn var undirritaður 31.01.2008 og hefur verið framlengdur/aðlagaður síðan. Háskólinn á Akureyri fer því með gæðaeftirlit meistaranáms hjá Háskólasetri og er nemendum í lok náms veitt meistaragráða frá Háskólanum á Akureyri.

Daglegur rekstur gæðamála meistaranáms er í höndum meistaranámsnefndar, þar sem eru þrír fulltrúar HA, einn fulltrúi Háskólaseturs og einn nemendafulltrúi, öll skipuð af rektor HA. Kennslustjóri og fagstjórar meistaranáms eru starfsmenn nefndarinnar og undirbúa og sitja fundina.

Regluleg úttekt á fullgildingu er í höndum ráðuneytis og vega námsleiðir hjá Háskólasetri inn í námsframboð Háskólans á Akureyri. Þess vegna skiptir það Háskólann á Akureyri miklu máli að gæðakröfur Háskólaseturs Vestfjarða séu góðar og hafi ekki neikvæð áhrif á HA í úttektum ráðuneytisins. Háskólasetur Vestfjarða er mjög meðvitað um þá ábyrgð sem felst í þessu fyrirkomulagi.

Áralangt samstarf UW og HA einkennist af trausti beggja stofnana hvorrar til annarar og mikilli velvíld Akureyringa í garð Vestfirðinga.

UW and SIT

Bandaríski SIT-háskólinn er sérhæfður í að senda nemendur sína erlendis, enda liggja hans rætur einmitt í School for International Training. Háskólinn er staðsettur í Vermont, en starfsemi hans teygist um allan heiminn. Samstarf SIT við Háskólasetur hófst 2007 með heimsókn vettvangsskóla SIT og hafa vettvangsskólar komið í nokkrar vikur hvert sumar æ síðan, jafnvel í heimsfaraldrinum.

SIT býður einnig upp á misserisnám þar sem nemendur dvelja í heila önn í ákveðnu landi við ákveðið nám og hófst þessi þáttur samstarfsins 2016. Með misserisnámi sköpuðust tvö ársstörf á Ísafirði, hjá Háskólasetri.

2018 ýtti SIT sínu fyrsta meistaranámi úr vör og gerði það einmitt með og hjá Háskólasetri Vestfjarða. Nemendur í meistaranámi SIT dvelja hjá Háskólasetri í eina önn í senn.

Tekjur af þjónustusamningunum við SIT eru stærsti tekjuliður Háskólaseturs á eftir fjárveitingu frá ríkinu og innritunargjöldum.

UW á Vestfjörðum

Í stjórn Háskólaseturs sitja skv. skipulagsskrá fulltrúar rannsóknarstofnana, háskóla, aðila vinnumarkaðurins, Ísafjarðarbæjar og aðrir sem fulltrúaráð kýs. Í stjórn hafa lengst af verið forstjórar Hafró og Veðurstofu Íslands, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, rektorar háskóla og leiðandi starfsmenn stórra fyrirtækja á Vestfjörðum.

Rannsóknarsamfélag Vestfjarða tekur til allra stofnana og fyrirtækja á Vestfjörðum sem sinna rannsóknum, sem og til einstaklinga utan stofnana.

      UW á Norðurslóðum

University of the Arctic er umfangsmikið og vaxandi tengslanet háskóla á norðurslóðum. Háskólasetur Vestfjarða er þar einn af fyrstu íslensku meðlimunum, á eftir Háskólanum á Akureyri. Háskólasetur Vestfjarða hefur enda átt í mjög virku starfi með UArctic í gegnum árin og tengjast mörg verkefni á sviði rannsókna og kennslu einmitt norðurslóðunum.