Að meta efnahagsleg áhrif náttúruhamfara á landbúnaðariðnaðinn

Í Vísindaporti vikunnar er sjónum beint að landbúnaðinum og er gestur okkar dr. Christa Court. Mun hún í erindi sínu velta því fyrir sér hvernig hægt er að finna aðferð til að meta efnahagslegt tap sem fyrirtæki í landbúnaðargeiranum, og um leið svæðin þar sem þau starfa, geta orðið fyrir af völdum náttúruhamfara. Tekið verður dæmi frá afleiðingum fellibylsins sem nýlega gekk á land í Flórída í Bandaríkjunum.

Landbúnaðargeirinn verður reglulega fyrir skaðlegum áhrifum í kjölfar náttúruhamfara. Ræktað land og búfénaður tapast auk afurða. Byggingar, búnaður, girðingar og aðrir innviðir verða fyrir skemmdum eða eyðileggjast. Slík tjón hafa áhrif bæði á fyrirtækin og samfélögin sem háð eru landbúnaði.  Máli skiptir með hvaða hætti gögnum um slík tjón er safnað, hvernig þau eru greind og birt. Standa hagsmunaaðilar reglulega frammi fyrir fjölmörgum áskorunum við úrvinnslu mála, t.a.m. vegna þess að upplýsingaöflun er ofaukin eða ósamræmd, eða skýrslugerð ruglingsleg. Einkennandi fyrir landbúnaðinn eru m.a. tímabundnar sveiflur í framleiðslunni sem gerir það að verkum að aðferðir sem notaðar eru til að meta tjón í öðrum geirum samfélagsins henta ekki. Frekari upplýsingar er að finna í samantekt á ensku

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10.

Dr. Christa Court kennir við matvæla- og auðlindadeild Flórída-háskóla (UF), en hún tengist einnig öðrum stofnunum og deildum UF-háskólans, svo sem auðlinda- og umhverfisdeild og vatnastofnun. Hefur hún verið viðriðin mörg rannsóknarverkefni og liggur eftir hana fjöldi vísindalegra greina. Christa Court lauk gráðu á bakkalárstigi í hagfræði og spænsku frá Middle Tennessee State-háskólanum, meistaragráðu í hagfræði og í framhaldinu doktorsgráðu í sama fagi frá Háskólanum í Vestur-Virginíufylki.

Vísindaportið fer að vanda fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13. Erindið verður að þessu sinni flutt á ensku. Allir velkomnir.

Á döfinni

Dr. Christa Court
Dr. Christa Court

Frá árupptökum til sjávar: hugsanleg áhrif upptöku köfnunarefnis á efnahvörf örvera og fæðuvef í hlýnandi heimi

 

Gestur í Vísindaporti vikunnar er dr. Jill Welter sem er vistfræðingur og sérhæfir sig í vistfræði straumvatna. Í erindinu mun hún fjalla um rannsóknir sínar sem miðast að því að skilja hvernig athafnir manna sem valda umhverfisbreytingum, svo sem hlýnun loftslags og ofauðgun, hafa áhrif á fæðuvef vatna og vinnslu næringarefna. Fyrir frekari upplýsingar sjá samantekt á ensku. 

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10.

Dr. Jill Welter hefur starfað á Grænlandi, Svalbarða, Kamtsjatka og á Íslandi, en hér á landi hefur Jill unnið í samvinnu við vísindamenn frá Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna og Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn. Hún hefur einnig unnið að því að koma konum í vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði á framfæri í gegnum röð opinna málstofa og málþinga. Nýlega var sem dæmi haldin ljósmyndasýning um vísindakonur: Changing Climates: A photographic journey of women in science (Loftslag í breytingum: ferðalag í ljósmyndum um vísindakonur), þar sem fjallað var um reynslu vísindateymis í afskekktum byggðum Norðurskautsins.  Jill dvelur nú á haustönn á Ísafirði sem fagstjóri meistaranámsins Climate Change and Global Sustainability (lofslagsbreytingar og hnattræn sjálfbærni) sem SIT-skólinn (School for International Traning), í Vermont í Bandaríkjunum býður upp á í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða.

Vísindaportið fer að vanda fram í kaffistofu Háskólaseturs kl.12:10-13. Erindið verður að þessu sinni flutt á ensku. Allir velkomnir.

Á döfinni

Dr. Jill Welter (hægra megin í mynd) við rannsóknir ásamt samstarfsfólki.
Dr. Jill Welter (hægra megin í mynd) við rannsóknir ásamt samstarfsfólki.

Sjálfbær fegurð: hannað með náttúrunni 

Gestur í Vísindaporti vikunnar er Kjartan Bollason og mun hann í erindi sínu rýna í hönnun ferðaþjónustuumhverfis og pæla í hlutverki fagurfræðinnar og sér í lagi svokallaðrar grænnar fagurfræði. Spurt verður hvaða máli fegurð skiptir fyrir mat á sjálfbærni hins byggða umhverfis. Um leið verður rýnt í hvernig við notum val á sjónarhorni við mat á hvað er fallegt umhverfi og hvernig við metum gæði hins byggða umhverfis.

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10.

Kjartan Bollason er umhverfisfræðingur, leiðsögumaður og lektor við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum. Hann kennir nú námskeiðið Community and the Built Environment (Samfélag og manngert umhverfi) sem er valnámskeið í meistaranámsleiðunum Haf- og strandsvæðastjórnun og Sjávarbyggðafræði.

Vísindaportið fer að vanda fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13. Allir velkomnir.

Á döfinni

Frá höfninni í Hamborg, Þýskalandi.
Frá höfninni í Hamborg, Þýskalandi.

Vistkerfisþjónusta hvala á norðurslóðum

Gestur vikunnar í Vísindaporti dr. David Cook mun fjalla um rannsóknir á vegum ARCPATH-verkefnisins (Arctic Climate Predictions - Pathways to Resilient, Sustainable Societies) á vistkerfisþjónustu hvala og segja frá nýjustu niðurstöðum þessara rannsókna. Meginþema erindisins er hvaða gagn íbúar á Norðurslóðum geta haft af hvölum, hvernig hægt er að gera grein fyrir gildi þeirra í ákvarðanatöku og hvaða málamiðlanir hafa verið að eiga sér stað á  milli aðila ferðaþjónustunnar og heimamanna. Skoðuð verða dæmi úr tilviksrannsóknum ARCPATH sem hafa farið fram á Húsavík, í Andenes í Noregi auk Diskóflóa á Grænlandi. 

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10.

David er nýdoktor við Háskóla Íslands og beinast rannsóknir hans að vistkerfisþjónustu hvala á Norðurslóðum. Í doktorsrannsókn sinni skoðaði David vistkerfisþjónustu sem á rætur sínar að rekja til jarðhitasvæða og notaði hann skilyrta matsaðferð til að meta viljann til þess að fjármagna verndun slíkra svæða á Íslandi. Í öðrum nýlegum rannsóknum hans hefur sjónum verið beint að t.a.m. sjálfbærni umhverfis og áhættustjórnun á Norðurslóðum. Auk þess heldur David fyrirlestra á sviði umhverfishagfræði við Háskóla Íslands. Hann er nú kominn til Ísafjarðar til að kenna námskeið í hagfræði, Resource Economics and Policy, við Háskólasetrið.

Vísindaportið fer að vanda fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 og verður dagskráin að þessu sinni á ensku. Allir velkomnir.

Á döfinni

Dr. David Cook.
Dr. David Cook.

Stafræna umbreytingin: að sjá tækifæri frekar en ógnanir

Í Vísindaporti vikunnar, sem er jafnframt það síðasta í ár, munu Linda Randall og Mari Wøien Meijer frá Nordregio, rannsóknastofnun Norrænu ráðherranefndarinnar, fjalla um þau margvíslegu áhrif sem stafræn umbreyting hefur á hagkerfi, stjórnsýslu og samfélag okkar. En nákvæmlega hvað er stafræn umbreyting? Hvaða áhrif hefur hún á daglegt líf okkar? Á störf okkar? Á staðina þar sem við búum? Og, ef til vill mikilvægast, hvernig getum við nýtt okkur tækifærin sem henni fylgja? Í erindi sínu mun Linda velta þessum spurningum fyrir sér með dæmum úr þremur mismunandi rannsóknarverkefnum Nordregio. Frekari upplýsingar er að finna í fréttatilkynningu á ensku.

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10. 

Í framhaldi af Vísindaportinu stendur Vestfjarðastofa fyrir vinnustofu þar sem fyrirtæki og stofnanir fá tækifæri til að ræða þá möguleika sem fylgja stafrænum umbreytingum, sjá Vinnustofa - Stafræn umbreyting á Vestfjörðum.  

Nordregio, rannsóknastofnun Norrænu ráðherranefndarinnar er alþjóðleg rannsóknarmiðstöð á sviði byggðaþróunar og -skipulags. Sinnir stofnunin rannsóknum sem snúa að byggðaþróun, svæðisbundinni nýsköpun, fólksflutningum, stafrænni þróun, borgarskipulagi og málefnum norðurslóða. Frekari upplýsingar hjá Nordregio.

Linda Randall er menntuð í félagsfræði og borgar- og svæðisskipulagi og hefur hún komið að fjölbreyttum verkefnum og rannsóknum sem snúa meðal annars að svæðisbundinni þjónustu og stefnugreiningu. Í sínum rannsóknum hefur Linda einkum áhuga á borgar- og svæðisskipulagi, umskiptum í samfélaginu, samfélagslegri þátttöku og atvinnumarkaðinum.  

Mari Wøien Meijer sinnir rannsóknum á sviði félagsvísinda og hefur hún bakgrunn í alþjóðasamskiptum og lífhagkerfi. Hún hefur starfað í lífeldisneytisiðnaði og hefur í sínum rannsóknum sérstakan áhuga á þáttum sem varða þá áhættu og óvissu sem reglugerðir geta haft á nýsköpun í lífhagkerfinu, auk viðfangsefna sem snúa að stjórnunarháttum og breytingum í hinu pólitíska umhverfi. 

Vísindaportið fer að vanda fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13. Erindið verður að þessu sinni flutt á ensku. Allir velkomnir.

Á döfinni

Linda Randall og Mari Wøien Meije frá Nordregio.
Linda Randall og Mari Wøien Meije frá Nordregio.