Samkomulagið um stjórnun fiskveiða og vísindasamstarf í Norður-Íshafi

Gestur í Vísindaporti vikunnar er Lauren Fields. Í erindi hennar verður sjónum beint að sögulegu samkomulagi um stjórnun fiskveiða og vísindasamstarfi í Norður-Íshafi (e. CAO Fisheries Agreement). Samkomulagið sem gildir í 16 ár var undirritað síðla árs 2017 og felur það í sér að þær tíu þjóðir sem eru aðilar þess skuldbinda sig til að heimila ekki veiðar á samningssvæðinu fyrr en vísindarannsóknir hafa lagt grunn að sjálfbærri stjórnun þess. Skoðað verður hvort það er yfirleitt raunhæft og árangursríkt að stunda þar fiskveiðar í atvinnuskyni. Lauren mun í erindi sínu fjalla um atriði þessa samkomulags, núverandi strandveiðar í Íshafi og göngur fiskstofna inn í Norður-Íshaf.

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10. 

Lauren Fields lauk doktorsgráðu í lífeðlisfræði Suðurskautsfiska 2015 frá Illinois-háskóla. Hún hafði áður lokið BA-gráðu í líffræði og miðaldafræðum. Lauren vinnur nú hjá bandarísku hafrannsóknarstofnunni (U.S. National Oceanic and Atmospheric Administration) sem sérfræðingur á sviði utanríkismála og með eftirliti á sjávarfangi. Hún býr nú tímabundið á Íslandi sem Fulbright-styrkþegi við Háskólann á Akureyri þar sem hún er að afla sér þekkingar um íslenska fiskveiðistjórnun, skoða framtíðar aðferðir og möguleika í Norður-Íshafi. 

Vísindaportið er opið öllum og fer fram kl. 12:10-13 í kaffistofu Háskólaseturs. Erindið verður að þessu sinni flutt á ensku. Verið velkomin.

Á döfinni

Eldhúsglugginn – óður til hversdagsleikans

Gestur í Vísindaporti vikunnar er Sæbjörg Freyja Gísladóttir, þjóðfræðingur. Í erindi sínu mun Sæbjörg velta hversdagsleikanum fyrir sér með útgangspunkti í eldhúsglugganum. Mörg okkar eyða umtalsverðum tíma fyrir framan eldhúsgluggann, ekki endilega til að njósna um nágranna eða horfa á umhverfið heldur kannski frekar af því að þar fer mikill hluti vinnu okkar fram, við matseld og frágang. Það sem ratar í gluggakistuna og sem umgjörð utan um útsýnið er oftar en ekki persónulegt og stundum geyma hlutirnir sögu.

Sagt verður frá ljósmyndasýningu á samfélagsmiðlinum Facebook sem haldin var í maí á þessu ári. Sýningin fjallaði um eldhúsglugga og fagurfræði hversdagsleikans. Um 30 einstaklingar sýndu myndir af eldhúsgluggum og ýmsum munum sem stillt er upp í og við gluggakistuna. Fátt er hversdagslegra en eldhúsglugginn en þeir sem vinna fyrir framan hann gefa honum og hlutunum í kring oft dýpri merkingu en sjáanleg er fyrir utanaðkomandi. Slík er bæði fegurðin og galdurinn við hversdagsleikann.

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10.

Sæbjörg Freyja Gísladóttir útskrifaðist sem þjóðfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2016. Lokaritgerð hennar var etnógrafía um Flateyri sem ber nafnið Hafið eða fjöllin, um Flateyri og fólkið þar. Ritgerðin mun koma út sem bók í nóvember 2019. Árið 2014 fluttist Sæbjörg til Flateyrar ásamt börnum sínum og hefur síðan þá m.a. stundað rannsóknarstörf, stýrt leikskólanum á Flateyri ásamt því að vera blaðamaður og fyrrum ritstjóri vefmiðilsins Bæjarins Besta, bb.is.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 og eru allir velkomnir.

Á döfinni

Horft út um eldhúsglugga Sæbjargar Freyju Gísladóttur á Flateyri.
Horft út um eldhúsglugga Sæbjargar Freyju Gísladóttur á Flateyri.

Arctic Circle-ráðstefnan kynnt

Vísindaport vikunnar verður að þessu sinni með öðru sniði en áður, en nemendur Háskólaseturs af námsleiðunum í Haf- og strandsvæðastjórnun og Sjávarbyggðafræði  munu deila með okkur reynslu sinni af því að hafa setið ráðstefnuna Arctic Circle (Hringborð Norðurslóða) sem haldin var í Hörpu í Reykjavík dagana 10.-12. október s.l.  Sagt verður frá málefnum sem tekist var á um og sjónarmið sem fram komu, en á þessu þingi ræddu og deildu yfir tvö þúsund þátttakendur um framtíð norðurskautssvæðisins.  

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10.

Arctic Circle er stærsta net alþjóðlegrar samræðu og samvinnu um framtíð norðurslóða. Hin árlega ráðstefna í Reykjavík sem fór nú fram í sjöunda skipti er sú stærsta á heimsvísu, þar sem þróun norðurskautsins og afleiðinga þess á framtíð jarðar eru í brennidepli.

Árlega mæta á Arctic Circle yfir 2.000 þátttakendur frá meira en 50 löndum í heiminum. Meðal þátttakenda má finna ráðamenn þjóða, þingmenn, embættismenn, vísindamenn, athafnamenn, leiðtoga fyrirtækja, fulltrúa frumbyggja,  umhverfisverndarsinna, námsmenn, aðgerðasinna, ásamt öðrum víða að úr heiminum sem láta sig málið varða. 

Vísindaportið fer að vanda fram í kaffistofu Háskólaseturs kl.12:10-13 og verður dagskráin að þessu sinni á ensku. Allir velkomnir.

Á döfinni

Nemendahópurinn fyrir framan Hörpu, þar sem Arctic Circle fór fram.
Nemendahópurinn fyrir framan Hörpu, þar sem Arctic Circle fór fram.

Að læra saman að vera við sjálf 

Gestur vikunnar í Vísindaporti er Râna Campbell, starfsmaður hjá Vesturafli, geðræktarmiðstöð og umsjónarmaður Fjölsmiðjunnar. Í erindi sínu mun Râna kynna verkefni sem unnið var á vor- og haustdögum 2018 en þá voru haldnar tvær ljósmyndasýningar á Ísafirði með myndum eftir notendur Vesturafls, Starfsendurhæfingar Vestfjarða og Fjölsmiðjunnar. Sýningarnar voru afrakstur verkefnisins „Þjóðmyndir“ og voru þær einnig hluti af stærri rannsóknarverkefnum. Markmiðið var að skoða áhrifin af því að gefa fólki, og ekki síst þeim sem upplifað hafa erfiðleika í lífinu, tækifæri til að vinna saman og tjá sig á listrænan hátt á opinberum vettvangi. Râna mun segja frá verkefninu og rýna í helstu þætti þess: hvað það er að framkvæma samvinnurannsókn og hvaða möguleika það gæti falið í sér fyrir samfélagið að nota þessa aðferðafræði.

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10.

Râna er með BA próf í heimspeki og frjálsum menntum (e. liberal arts) frá Concordia-háskólanum í Montreal, Kanada og meistarapróf í haf- og strandsvæðastjórnun frá Háskólasetri Vestfjarða/Háskólanum á Akureyri. Hún hefur lengi unnið með minnihlutahópum og jaðarhópum og hefur mikinn áhuga á þátttöku þeirra í list- og menningarlífi samfélagsins,  meðfram annarri list. Í meistararitgerð sinni skoðaði hún þetta mál í tengslum við siðfræði og safnafræði og verkefnið sem kynnt verður í Vísindaportinu er framhald af þessum áhuga.

Vísindaportið fer að vanda fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13. Allir velkomnir.

Á döfinni