Eldhúsglugginn – óður til hversdagsleikans

Gestur í Vísindaporti vikunnar er Sæbjörg Freyja Gísladóttir, þjóðfræðingur. Í erindi sínu mun Sæbjörg velta hversdagsleikanum fyrir sér með útgangspunkti í eldhúsglugganum. Mörg okkar eyða umtalsverðum tíma fyrir framan eldhúsgluggann, ekki endilega til að njósna um nágranna eða horfa á umhverfið heldur kannski frekar af því að þar fer mikill hluti vinnu okkar fram, við matseld og frágang. Það sem ratar í gluggakistuna og sem umgjörð utan um útsýnið er oftar en ekki persónulegt og stundum geyma hlutirnir sögu.

Sagt verður frá ljósmyndasýningu á samfélagsmiðlinum Facebook sem haldin var í maí á þessu ári. Sýningin fjallaði um eldhúsglugga og fagurfræði hversdagsleikans. Um 30 einstaklingar sýndu myndir af eldhúsgluggum og ýmsum munum sem stillt er upp í og við gluggakistuna. Fátt er hversdagslegra en eldhúsglugginn en þeir sem vinna fyrir framan hann gefa honum og hlutunum í kring oft dýpri merkingu en sjáanleg er fyrir utanaðkomandi. Slík er bæði fegurðin og galdurinn við hversdagsleikann.

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10.

Sæbjörg Freyja Gísladóttir útskrifaðist sem þjóðfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2016. Lokaritgerð hennar var etnógrafía um Flateyri sem ber nafnið Hafið eða fjöllin, um Flateyri og fólkið þar. Ritgerðin mun koma út sem bók í nóvember 2019. Árið 2014 fluttist Sæbjörg til Flateyrar ásamt börnum sínum og hefur síðan þá m.a. stundað rannsóknarstörf, stýrt leikskólanum á Flateyri ásamt því að vera blaðamaður og fyrrum ritstjóri vefmiðilsins Bæjarins Besta, bb.is.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 og eru allir velkomnir.

Á döfinni

Horft út um eldhúsglugga Sæbjargar Freyju Gísladóttur á Flateyri.
Horft út um eldhúsglugga Sæbjargar Freyju Gísladóttur á Flateyri.