Super Bowl: stærsti árlegi íþróttaviðburður heims

Að þessu sinni má búast við að Vísindaportið verði á léttari nótunum og ætti enginn sem hefur áhuga á íþróttum að láta þetta tækifæri til að fræðast um amerískan fótbolta fram hjá sér fara. Gestur okkar Dan Govoni mun fjalla um sögu Super Bowl og hvernig þessi geysivinsæla, árlega keppni í amerískum fótbolta hefur þróast í gegnum árin í þann menningarviðburð sem keppnin er í dag. Það eru þrjár ástæður fyrir því að fólk horfir á Super Bowl: leikurinn sjálfur, sýningin sem fer fram í hálfleik og auglýsingarnar. Dan mun einnig fræða okkur um hvernig leikurinn fer fram, en amerískur fótbolti er mjög frábrugðinn evrópskum. Fjallað verður einnig um Super Bowl ársins 2019.

Dan Govoni er bandarískur að uppruna, frá Des Moines í Iowa-fylki, en hann býr nú á Ísafirði ásamt fjölskyldu sinni. Að mennt er Dan ferskvatnsvistfræðingur og er hann í doktorsnámi í líffræði við Háskóla Íslands. Dan er einnig fagstjóri hjá SIT (School for International Training) og stýrir hann námsleiðinni Climate Change and the Arctic auk þess sem hann sinnir stundakennslu við námsleiðina í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið. Kennir hann tölfræði og námskeið um loftslagsbreytingar og fjölmiðla, Communicating climate change.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 og eru allir velkomnir. Að þessu sinni fer dagskráin fram á ensku.

Á döfinni

Dokkan: fyrsta brugghúsið á Vestfjörðum

Hvað fær fólk til að ráðast í nýsköpun? Hugmynd vaknar, hún er rædd og það er ákveðið að kynna sér hvað gæti falist í þessari hugmynd. Svo er ákvörðunin tekin. Í grófum dráttum var ferlið á þessa leið hjá stofnendum Dokkunnar brugghúss og verða tveir þeirra, þau Gunnhildur Gestsdóttir og Hákon Hermannsson, gestir í Vísindaporti vikunnar. Munu þau segja okkur frá aðdraganda að stofnun þessa ísfirska nýsköpunarfyrirtækis sem jafnframt er fjölskyldufyrirtæki.

Dokkan er stofnuð til að brugga bjór fyrir Vestfirðinga, en einnig með erlenda ferðamenn sem leggja leið sína á Ísafjörð í huga og auðvitað alla landsmenn. Svo er aldrei að vita, þegar fram líða stundir hvort bjórinn verður ef til vill fluttur út á erlendan markað.

Gunnhildur Gestsdóttir er fædd og uppalin á Suðureyri við Súgandafjörð. Hún hefur búið á Ísafirði frá 1979 ásamt eiginmanni sínum Alberti Marzelíusi Högnasyni. Hún hefur verið í eigin rekstri meira og minna síðastliðin 30 ár og meðal annars rekið Blómabúð Ísafjarðar, 3X Technology (nú Skaginn 3X), verslunina Silfurtorg og núna Jóga-Ísafjörður ásamt því að vera eigandi og stjórnarformaður Dokkunnar brugghúss ehf.

Hákon Hermannsson er fæddur og uppalinn á Ísafirði og býr þar ásamt fjölskyldu sinni, eiginkonu og fjórum sonum. Lauk hann námi við MÍ og hefur unnið sem sölustjóri hjá Sólsteinum, verslunarstjóri hjá Samkaupum ásamt vinnu við múrverk og aðra iðn. Hákon starfar nú sem framkvæmdastjóri Dokkunnar brugghús ehf.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 og eru allir velkomnir.

Á döfinni

Dokkan brugghús.
Dokkan brugghús.

Þetta er það sem ég elskaði að gera: reynsla kennara af áreitni nemenda og foreldra

Gestur í Vísindaporti vikunnar er Sveinfríður Olga Veturliðadóttir og mun hún kynna niðurstöður rannsóknar. Markmið með rannsókninni var að skoða hver reynsla kennara er af áreitni nemenda og foreldra og hvaða áhrif hún hefur á líðan þeirra, bæði persónulega og faglega. Rannsóknarspurningarnar sem lagt var upp með eru: Hver er reynsla kennara af áreitni foreldra og nemenda? Hver eru áhrif áreitni á líðan þeirra í starfi og einkalífi? Rannsóknin var birt sem M.Ed.-ritgerð við Menntasvið Háskóla Íslands í nóvember 2018 “Þetta er það sem ég elskaði að gera, reynsla kennara af áreitni nemenda og foreldra”. Ítarlegra ágrip er að finna hér að neðan.

Sveinfríður Olga er fædd og uppalin á Ísafirði. Lauk hún B.Ed gráðu frá Kennaraháskóla Íslands 1991, diplómu í Stjórnun menntastofnana frá sama skóla 2006 og M.Ed prófi í Stjórnun menntastofnana frá Háskóla Íslands 2018.  Sveinfríður Olga hefur kennt við Vesturbæjarskóla, Rimaskóla og Borgarskóla í Reykjavík frá 1991-2006 þar sem hún leysti af sem aðstoðarskólastjóri eitt ár og var deildarstjóri í 3 ár utan eitt ár við Grunnskólann á Ísafirði 1992-93.  Frá haustinu 2007 hefur Sveinfríður Olga verið skólastjóri við Grunnskólann á Ísafirði.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 og eru allir velkomnir.

 

Ágrip:

Um var að ræða eigindlega rannsókn og fór öflun gagna fram með viðtölum við tíu kennara. Kennararnir eru allir starfandi grunnskólakennarar sem kenna við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi. Viðtölin voru tekin upp og afrituð og að því loknu þemagreind.

Í ljós kom að kennararnir hafa allir orðið fyrir áreitni af hendi nemenda og foreldra, allt frá því að vera hunsaðir og ögrað af nemendum til líkamlegra árása nemenda. Áreitni foreldra felst í hótunum, ógnunum og að þeir eru ósamvinnufúsir. Þar sem foreldrar eru í samstarfi við skólana er auðveldara að taka á erfiðum nemendamálum.

Áhrifin á líðan kennara, bæði í starfi og einkalífi eru mikil. Þeir upplifa það að mikill tími fari í að leysa mál nokkurra nemenda og það hafi áhrif á kennslu og undirbúning. Þeir eru þreyttir og bugaðir og eiga litla orku eftir þegar heim er komið. Sumir þeirra hafa farið í veikindaleyfi vegna vanlíðunar og álags. Kennararnir upplifa líka mikið úrræðaleysi í skólunum og skólakerfinu til að takast á við erfiða hegðun nemenda.

Vonast Sveinfríður Olga til þess að þessar niðurstöður hennar geti varpað ljósi á starfsaðstæður kennara og að þær verði til þess að stærri rannsóknir verði gerðar. Í þessari rannsókn kom greinilega fram að kennarar telja þau auknu verkefni, svo sem innleiðingu nýrrar aðalnámskrár, innleiðingu nýs námsmats og aðlögun að nýjum Mentor (náms- og upplýsingakerfi), leiði til áreitni og aukins álags í starfinu.

 

Á döfinni