Fagstjóri meistaranáms: Sjávarbyggðafræði

Háskólasetur Vestfjarða leitar að kraftmiklum einstaklingi í krefjandi starf fagstjóra nýrrar námsleiðar í sjávarbyggðafræði (Coastal Communities and Regional Development). Námsleiðin er sambærlileg alþjóðlegri, þverfaglegri námsleið á meistarastigi í haf- og strandsvæðastjórnun (Coastal and Marine Management), sem nú þegar er kennd við Háskólasetrið, með um 40-50 virkum meistaranemum ár hvert. Báðar námsleiðirnar eru í samstarfi við Háskólann á Akureyri.

Fagstjóri vinnur í litlu en framsæknu háskóla- og rannsóknarumhverfi á Ísafirði og hefur rík tækifæri til að sýna frumkvæði með það að markmiði að skapa framúrskarandi náms- og vinnuumhverfi fyrir alþjóðlegan nemendahóp. Fagstjóri skipuleggur kennslu, viðheldur tengslum við samstarfsaðila námsins og forleiðbeinir nemendum í meistaraprófsritgerðum. Starfið krefst mikillar skipulagshæfni, faglegra vinnubragða og vilja til að veita frábæra þjónustu. Starfið krefst sérlega mikillar samstarfshæfni enda eiga námsleiðirnar tvær að ganga í takt. Fagstjórinn þarf að fylgjast vel með lokaritgerðarvinnu nemenda í náinni samvinnu við leiðbeinendur og þarf til þess að hafa góða faglega yfirsýn sem og þekkingu á helstu rannsóknaraðferðum í mannvistarlandfræði, félagsvísindum og/eða hagfræði. Æskilegt er að fagstjóri hafi reynslu af að leiðbeina nemendum á meistarastigi. Til greina kemur að fagstjórinn taki að sér einhverja kennslu.

Menntunar- og hæfniskröfur

  • Þverfræðileg menntun og/eða rannsóknarreynsla á viðeigandi sviði
  • Meistarapróf eða doktorspróf
  • Þjónustulund og lipurð í mannlegum samskiptum
  • Skipulagshæfni
  • Frumkvæði og sveigjanleiki í starfi
  • Reynsla af rannsóknarvinnu og leiðbeiningu lokaritgerða æskileg
  • Góð enskukunnátta í ræðu og riti. Kunnátta í íslensku æskileg

 Við mat á umsóknum er tekið mið af því hversu vel viðkomandi uppfyllir þarfir Háskólaseturs með hliðsjón af því að námsleiðirnar tvær þróist á svipaðan hátt. Háskólasetrið áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Nýr fagstjóri þarf að geta hafið störf í síðasta lagi á haustmisseri 2019. Upplýsingar veitir Peter Weiss, forstöðumaður, í síma 450 3045 eða weiss@uw.is

Umsóknir með ritaskrá, skrá yfir kennslureynslu og önnur akademisk störf, ef við á, sendist í tölvupósti á weiss@uw.is. Umsóknarfrestur er til og með 28.02.2019

Á döfinni

Ísafjörður. Ljósmynd: Ágúst Atalson.
Ísafjörður. Ljósmynd: Ágúst Atalson.

Viltu kynna nýsköpun þína fyrir fáum eða heiminum?

Í Vísindaporti vikunnar verður hægt að kynna sér þjónustu ráðgjafafyrirtækinsins Evris sem í samstarfi við alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Inspiralia hefur opnað einstök tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir sem vinna að nýsköpun, þróunarstarfi og/eða rannsóknum að sækja alþjóðlega styrki og aðra þjónustu austan hafs og vestan. Gestur okkar er Anna Margrét Guðjónsdóttir frá Evris og er þetta í fyrsta sinn sem hún er með kynningu á Vestfjörðum. 

Anna Margrét Guðjónsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Evris, ætlar að kynna nýjar áherslur í evrópskum styrkjum, bandaríska styrki og samninga við opinbera aðila, hvernig Evris getur aðstoðað við að opna nýja markaði o.fl.  Í stuttu máli sagt - ýmislegt sem kemur sér vel fyrir aðila í nýsköpun og þróunarstarfi sem vilja komast með þekkingu sína á alþjóðlega markaði.

Með aðstoð Evris og Inspiralia hafa íslensk fyrirtæki fengið rúmar 11 milljónir evra til vöruþróunar og undirbúnings alþjóðlegrar markaðssetningar.  Eftirtalin fyrirtæki eru meðal þeirra sem hafa fengið evrópska styrki með aðstoð Evris og Inspiralia: Aurora Seafood, Genis, Skaginn3X, Saga Medica,  Mentor, DoHop, EpiEndo, SideKick health, eTactica, Stálsmiðjan-Framtak, Ekkó toghlerar, Erki tónlist, Info Mentor, GeoSilica, Memento, Navis, Fisheries Technology, Þula, Keynatura, Seafood IQ, IceCal, Curio, CRI, Asco Harvester, Naust Marine, Seagem, Platome, Oz, D-Tech, SYNDIS, Mussilla, Valka, Hefring og Svarmi.

Eftir kynningafundinn verður boðið upp á einstaklingsviðtöl og hægt að fara yfir möguleika einstakra fyrirtækja/einstaklinga. Þeir sem hafa áhuga á einstaklingsviðtölum eru beðnir um að láta vita af sér með því að senda póst á annamargret@evris.is

Frekari upplýsingar um Evris má finna hér: http://www.evris.org/blog og https://www.facebook.com/evris.eu/

Anna Margrét Guðjónsdóttir bjó í nokkur ár á Ísafirði og starfaði þar sem ferðamálafulltrúi Vestfjarða. Rak hún skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel um þriggja ára skeið en stofnaði fyrirtækið Evris árið 2012 og hefur rekið það síðan. Verkefnið byggir á meistararitgerð hennar sem fjallaði um útflutning þekkingar. Anna Margrét er með BS gráðu í landafræði, kennsluréttindi og meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 og er opið öllum.

Á döfinni

Læsi og upplýsingatækni í fullorðinsfræðslu í dreifðum byggðum

Gestur í Vísindaporti vikunnar er Elfa Svanhildur Hermannsdóttir og mun hún í erindi sínu fjalla um Evrópuverkefni sem Fræðslumiðstöð Vestfjarða fer með verkefnastjórn í. Í því er verið að skoða hvernig hægt er að mæta fullorðnu fólki sem hefur ekki mikla læsisfærni og færni í upplýsingatækni. Þá er sjónum sérstaklega beint að þeim sem eru innflytjendur; hvernig hægt er að ná til þeirra og mæta þeim þrátt fyrir að eiga heima í dreifðum byggðum.

Elfa Svanhildur Hermannsdóttir er forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Flutti hún á Ísafjörð árið 2017 þegar hún var ráðin til fræðslumiðstöðvarinnar. Elfa er með mastersgráðu í verkefnastjórnun, framhaldsgráðu í stjórnun menntastofnana og sérkennslufræðum. Í grunninn er hún grunnskólakennari.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 og eru allir velkomnir.

Á döfinni