Vöru- og markaðsþróun grásleppuhrogna

Fimmtudaginn 17. maí mun John H. Burrows verja meistaraprófsritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Ritgerðin fjallar um möguleika á nýrri markaðssetningu grásleppuhrogna og ber titilinn Putting the Eggs in Different Baskets: Potential Marketing Strategies for Icelandic Lumpfish (Cyclopterus lumpus) Roe.

Þess má geta að verkefni Johns H. Burrows hlaut styrk frá Byggðastofnun fyrir verkefnið úr styrktarsjóði stofnunarinnar fyrir meistaraverkefni.

Vörnin hefst kl. 13:00 og er opin almenningi.

Leiðbeinandi ritgerðarinnar dr. Hjörleifur Einarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Prófdómari er dr. María Guðjónsdóttir, dósent við Háskóla Íslands.

Úrdráttur

Hrogn gráleppunnar (Cyclopterus lumpus) hafa verið nýtt á Íslandi um langa hríð. Undanfarna áratugi hafa helstu verðmæti tegundarinnar skapast vegna framleiðslu á grásleppukavíar sem er ætlaður sem staðkvæmdarvara styrjuhrogna. Verkefni þessu er ætlað að finna ný tækifæri til nýtingar á grásleppuhrognum með það að markmiði að auka hagsæld og tekjumöguleika í hinum dreyfðu byggðum á Íslandi. Fitusýruinnihald grásleppuhrogna var rannsakað með gasgreini til þess að meta hlutfall fosfórlípíða og metílestera af heildarfituhlutfalli hrognanna. Þær niðurstöður voru bornar saman af n-3 vörum og við niðurstöður hrogna annarra fisktegunda. Í desember 2017 var upplýsingum safnað varðandi innlendar vörur sem eru seldar á netinu ásamt því að skoða vörur í verslunum og apótekum á Norðurlandi vestra. Hlutfall omega -3 fitusýra, EPA og DHA í grásleppuhrognum kom vel út í samanburði við sambærilegar vörur framleiddar á Íslandi og hrognin innihalda almennt hærra hlutfall omega -3 fitusýra en hrogn annarra fisktegunda. Samanburður á vörum sýndi jafnframt sambærilegt hlutfall EPA og í flestum tilfellum hærra hlutfall DHA. Tillögur verkefnisins er snúa að auknu aflaverðmæti felast í því að skapa hrognunum sérstöðu á markaði með því að draga fram hlutfall fjölómettaðra fitusýra/DHA/EPA og fosfórlípíða. Einnig er lagt til að leggja mikið upp úr upprunamerkingu vörunnar. Einnig var lagt til að horft yrði til frekari útvinnslu í átt til heilsufæðis og fæðubótarefna.

John H. Burrows ver meistaraprófsverkefni sitt um vöru- og markaðsþróun grásleppuhrogna á Íslandi.

Á döfinni