Virknihús – miðstöð starfsendurhæfingar og geðræktar

Vísindaport vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða verður helgað nýrri starfsemi á Ísafirði sem hlotið hefur nafnið Virknihús en þar munu sameina krafta sína Starfsendurhæfing Vestfjarða, Vesturafl og Fjölsmiðja. Iðjuþjálfarnir og  nöfnurnar Harpa Lind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Starfsendurhæfingarinnar, og Harpa Guðmundsdóttir, forstöðumaður Vesturafls, mun flytja erindi þar sem sagt verður frá undirbúningi og fyrirhugaðri starfsemi Virknihúss.

Nú standa yfir breytingar á húsnæðinu sem áður hýsti Umboðsverslun Hafsteins Vilhjálmssonar að Suðurgötu 9 á Ísafirði en þar mun Virknihús verða til húsa. Þangað munu innan tíðar flytja starfsemi sína Vesturafl, Starfsendurhæfing Vestfjarða og svokölluð Fjölsmiðja. Starfsendurhæfing Vestfjarða og Vesturafl hafa verið starfandi um árabil og átt í góðu samstarfi. Síðustu misserin hefur verið unnið að stofnun Fjölsmiðju þar sem mikil þörf er á úrræðum fyrir ungt fólk, sem hefur átt erfitt með að fóta sig á vinnumarkaði eða innan skólakerfisins.

Harpa Lind Kristjánsdóttir er iðjuþjálfi og hefur starfað sem forstöðumaður Starfsendurhæfingar Vestfjarða frá stofnun hennar árið 2009.

Harpa Guðmundsdóttir er iðjuþjálfi og hefur starfað sem forstöðumaður geðræktarmiðstöðvarinnar Vesturafls frá stofnun hennar árið 2007.

Vísindaport er að vanda opið öllum áhugasömum en það stendur frá 12.10-13.00 í kaffistofu Háskólaseturs. Erindið verður flutt á íslensku.

Harpa Guðmundsdóttir tekur við lyklum að Suðurgötu 9 af Hafsteini Vilhjálmssyni, heildsala. Harpa Lind Kristjánsdóttir t.v.

Á döfinni