Þetta er það sem ég elskaði að gera: reynsla kennara af áreitni nemenda og foreldra

Gestur í Vísindaporti vikunnar er Sveinfríður Olga Veturliðadóttir og mun hún kynna niðurstöður rannsóknar. Markmið með rannsókninni var að skoða hver reynsla kennara er af áreitni nemenda og foreldra og hvaða áhrif hún hefur á líðan þeirra, bæði persónulega og faglega. Rannsóknarspurningarnar sem lagt var upp með eru: Hver er reynsla kennara af áreitni foreldra og nemenda? Hver eru áhrif áreitni á líðan þeirra í starfi og einkalífi? Rannsóknin var birt sem M.Ed.-ritgerð við Menntasvið Háskóla Íslands í nóvember 2018 “Þetta er það sem ég elskaði að gera, reynsla kennara af áreitni nemenda og foreldra”. Ítarlegra ágrip er að finna hér að neðan.

Sveinfríður Olga er fædd og uppalin á Ísafirði. Lauk hún B.Ed gráðu frá Kennaraháskóla Íslands 1991, diplómu í Stjórnun menntastofnana frá sama skóla 2006 og M.Ed prófi í Stjórnun menntastofnana frá Háskóla Íslands 2018.  Sveinfríður Olga hefur kennt við Vesturbæjarskóla, Rimaskóla og Borgarskóla í Reykjavík frá 1991-2006 þar sem hún leysti af sem aðstoðarskólastjóri eitt ár og var deildarstjóri í 3 ár utan eitt ár við Grunnskólann á Ísafirði 1992-93.  Frá haustinu 2007 hefur Sveinfríður Olga verið skólastjóri við Grunnskólann á Ísafirði.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 og eru allir velkomnir.

 

Ágrip:

Um var að ræða eigindlega rannsókn og fór öflun gagna fram með viðtölum við tíu kennara. Kennararnir eru allir starfandi grunnskólakennarar sem kenna við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi. Viðtölin voru tekin upp og afrituð og að því loknu þemagreind.

Í ljós kom að kennararnir hafa allir orðið fyrir áreitni af hendi nemenda og foreldra, allt frá því að vera hunsaðir og ögrað af nemendum til líkamlegra árása nemenda. Áreitni foreldra felst í hótunum, ógnunum og að þeir eru ósamvinnufúsir. Þar sem foreldrar eru í samstarfi við skólana er auðveldara að taka á erfiðum nemendamálum.

Áhrifin á líðan kennara, bæði í starfi og einkalífi eru mikil. Þeir upplifa það að mikill tími fari í að leysa mál nokkurra nemenda og það hafi áhrif á kennslu og undirbúning. Þeir eru þreyttir og bugaðir og eiga litla orku eftir þegar heim er komið. Sumir þeirra hafa farið í veikindaleyfi vegna vanlíðunar og álags. Kennararnir upplifa líka mikið úrræðaleysi í skólunum og skólakerfinu til að takast á við erfiða hegðun nemenda.

Vonast Sveinfríður Olga til þess að þessar niðurstöður hennar geti varpað ljósi á starfsaðstæður kennara og að þær verði til þess að stærri rannsóknir verði gerðar. Í þessari rannsókn kom greinilega fram að kennarar telja þau auknu verkefni, svo sem innleiðingu nýrrar aðalnámskrár, innleiðingu nýs námsmats og aðlögun að nýjum Mentor (náms- og upplýsingakerfi), leiði til áreitni og aukins álags í starfinu.

 

Á döfinni