Loftslagsbreytingar á Vestfjörðum - Staðbundið sjónarhorn á hnattrænt vandamál.

Fimmtudaginn 24. febrúar, kl. 14:00, mun Deirdre Bannan verja meistaraprófsritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun. Meistaraprófsvörnin er opin almenningi í Háskólasetrinu en er einnig aðgengileg á Zoom.

Ritgerðin ber titilinn „Climate change in the Westfjords, Iceland. A local perspective of a global problem“ eða „Loftslagsbreytingar á Vestfjörðum – Staðbundið sjónarhorn á hnattrænt vandamál.“ Markmið rannsóknarinnar er að greina loftslagsbreytingar á Vestfjörðum og meta möguleg áhrif þeirra á náttúrufar og lífsviðurværi íbúa á svæðinu.

Fyrsti leiðbeinandi verkefnisins er Dr. Benjamin Henning, prófessor í landfræði við Líf- og umhverfsideild Háskóla Íslands. Annar leiðbeinandi er Dr. Rannveig Ólafsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Líf- og umhverfisdeild Háskóla Íslands. Prófdómari er Dr. Jiří Pánek frá Háskólanum í Olomuc í Tékklandi.

Útdráttur

Loftslagsbreytingar eru eitt af mest aðkallandi málefnum líðandi stundar. Loftslag hefur í gegnum jarðsöguna sveiflast töluvert, þær breytingar sem nú eiga sér stað virðast hins vegar ekki eiga sér hliðstæðu í sögunni. Núverandi loftlagsbreytingar eru þegar farnar að hafa mikil áhrif á lífsviðurværi jarðarbúa á ýmsan hátt, og því er spáð að áframhaldandi hlýnun loftlags muni hafi margvíslegar afleiðingar á heimsvísu, eins og til dæmis hnignun vistkerfa, útbreiðslu sjúkdóma og hækkun sjávarborðs. Svo umfangsmiklar breytingar kalla á auknar rannsóknir á mögulegum áhrifum þeirra. Ísland, staðsett í miðju Norður Atlantshafi rétt sunnan við heimskautsbaug, hefur ekki farið varhluta af auknum loftlagsbreytingum og áhætta vegna loftslagstengdra breytingar á náttúrufar, lífríki og samfélag landsins virðist aukast ár frá ári. Markmið þessarar rannsóknar er að greina loftslagsbreytingar á Vestfjörðum og meta möguleg áhrif þeirra á náttúrufar og lífsviðurværi íbúa á svæðinu. Upplýsingum um hitastig og úrkomu var safnað frá öllum veðurstöðvum á Vestfjörðum eins langt aftur og tiltæk gögn ná, og gögnin greind og kortlögð í hárri upplausn. Niðurstöður sýna að tímabilið 2001-2020 er hlýrra en viðmiðunartímabilið 1961-1990, og á það við um næstum alla mánuði hvers árs. Jafnframt sýna niðurstöður að hlýnunin er mest yfir vetrarmánuðina. Eftirtektarvert er að mynstur árstíðarsveiflu sem greinanleg er í upphafi síðustu aldar, minnkar í upphafi þessarar aldar. Úrkomugreining bendir enn fremur til þess að úrkoma hafi aukist á árunum 1991-2020 miðað við 1961-1990. Þessi mynstur endurspegla nokkrar af helstu spám um loftslagsbreytingar og undirstrika jafnframt mikilvægi aukinna rannsókna á staðbundnum áhrifum loftlagsbreytinga til að auka skilning á áhrifum breytinganna á náttúruvá og samfélagslega innviði á hverju svæði fyrir sig.

Deirdre Bannan ver meistaraprófsritgerð sína um loftslagsbreytingar á Vestfjörðum.

Á döfinni