Áhrif frárennslis á vistkerfi Skutulfjarðar

Miðvikudaginn 29. apríl, kl. 9:00 mun Jake Maruil Thompson verja meistaraprófsritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Meistaraprófsvörnin er opin almenningin en vegna samkomubanns af völdum COVID-19 verður vörnin aðgengileg á netinu á YouTube rás Háskólaseturs.

Ritgerðin ber titilinn „Unfiltered: Sediment alterations in response to untreated wastewater emissions from a marine outfall off Ísafjörður, Iceland.“ En þar fjallar Jake um áhrif frárennslis á borð við skólp á vistkerfi Skutulsfjarðar.

Leiðbeinandi verkefnisins er dr. Rakel Guðmundsdóttir, vatnavistfræðingur við Hafrannsóknarstofnun, rannsókna- og ráðgjafastofnun hafs og vatna. Prófdómari er dr. Pernilla Carlsson, vísindakona við NIVA, norsku vatnarannsóknarstofnunina og kennari í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun.

Úrdráttur

Hæfni vistkerfis til þess að brjóta niður frárennsli (t.d. skólp) á sjálfbæran hátt er m.a. háð viðtakanum (vatnshlotinu), náttúrulegum ferlum innan viðtakans, vatnsskiptum og gerð frárennslisins. Rannsókn var framkvæmd á vatnshlotinu Pollinum í Skutulsfirði þar sem staðbundin skólpmengun (point source pollution) er til staðar en ekki nein hreinsistöð. Beinar athuganir á svæðinu voru framkvæmdar af kafara með ljósmyndun og myndbandsupptökum. Heildar upptaka súrefnis (TOU), afoxunarmætti og sýrustig (pH) var mælt í setsýnum (kjarnar). Kjörnum var safnað í kringum skólpútrás ásamt því að tekin voru sýni frá Álftafirði sem er viðtaki án álags frá skoólpi (viðmið). Endurteknar súrefnismælingar voru framkvæmdar á setinu til þess að meta súrefnisupptökuhraða þess og þar með meta lífrænt álag. Niðurstöðurnar sýndu að súrefnisupptakan var mest í sýnum sem tekin voru 7 m frá skólpafrennsli í Skutulsfirði. Samanburður á sýnatökusvæðunum sýndu að marktækur munur var á afoxunarmættinu milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar (p=0,009) sem bendir til aukins niðurbrots vegna mengunar við skólpútrásina. Einnig var munur á milli viðtakanna á heildarupptöku súrefnis (TOU) og pH en munurinn var þó ekki tölfræðilega marktækur.

Dreifbýl svæði sem skorta aðgengi að hreinsibúnaði geta nýtt sér aðferðafræði þessarar skýrslu til þess að vakta áhrif afrennslis og skólps á viðtaka og umhverfi hans. Þrátt fyrir að þessari rannsókn á Skutulsfirði sé lokið benda niðurstöður hennar til þess að mikilvægt sé að vakta viðtakann áfram. Gagnlegt væri að koma fyrir síunarbúnaði við ræsi til þess að fjarlægja stórar agnir eins og plast úr afrennsli. Einnig væri mögulegt að setja upp búnað sem aðskilur afrennsli/skólp sem að hluta til væri hægt að endurnýta.

Jake Maruli Thompson ver meistaraprófsritgerð sína um frárennslismál við Skutulsfjörð..

Á döfinni