Ljósmyndasýning fræðamanna Vestfjarða

Fræði- og vísindamenn frá ýmsum stofnunum á Vestfjörðum hafa tekið höndum saman og stofnað hóp sem kallast Rannsóknarumhverfi Vestfjarða. Markmið hópsins er að auka samvinnu milli fræðimanna og fræðasviða sem og að koma rannsóknum á framfæri til almennings.

Þriðjudaginn 29. maí mun hópurinn opna ljósmyndasýningu með myndum frá hinum ýmsu verkefnum og rannsóknum sem vísindafólkið hefur unnið að. Sýningaropnunin fer fram í Bryggjusalnum í Edinborgarhúsinu og stendur frá kl. 17:00-19:00. 

Vísinda- og fræðimenn munu vera á staðnum til að segja frá myndum sínum og svara spurningum varðandi rannsóknirnar og störf sín.

Hugmyndin á bak við sýninguna er að gefa almenning færi á að kynnast þeim fjölbreytilegu rannsóknum sem fram fara hér á svæðinu og sjá fólkið sem á bak við þær, sem býr og starfar hér á Vestfjörðum. Hópurinn hvetur sem flesta til að mæta og ekki síst yngstu kynslóðirnar því þau munu auðvitað verða vísindamenn framtíðarinnar hérna fyrir vestan. Boðið verður upp á léttar veitingar og börnin geta tekið þátt í leik og átt kost á því að vinna svolítil verðlaun.

Á döfinni

Ljósmynd frá Rannsóknasetri HÍ á Vestfjörðum. Anja Nickel sem útskrifaðist úr haf- og strandsvæðastjórnun og er nú í doktorsnámi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Bolungarvík.
Ljósmynd frá Rannsóknasetri HÍ á Vestfjörðum. Anja Nickel sem útskrifaðist úr haf- og strandsvæðastjórnun og er nú í doktorsnámi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Bolungarvík.

Háskólahátíð 16. júní 2018

Háskólahátíð Háskólaseturs Vestfjarða hefur alltaf verið haldin á 17. júní. Í ár færist hún hins vegar til um einn dag vegna tengingar við hátíðarhöldin á Hrafnseyri og komu forseta Íslands til Hrafnseyrar þann 16. júní.

 

Háskólahátíðin fer þar af leiðandi fram þann 16. júní 2018.

Á Háskólahátíð fögnum við með þeim nemendum sem útskrifast úr meistarnámi í haf- og strandsvæða­stjórnun sem og fjarnemum af Vestfjörðum.

Árið 2018 munu 18 nemendur útskrifast úr meistarnámi í haf- og strandsvæðastjórnun, sem er kennt hjá Há­skólasetri Vestfjarða í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Formleg útskrift er frá HA, en Háskólasetrið mun af þessu tilefni efna til háskólahátíðar á Hrafnseyri þann 16. júní 2018. Háskólasetur Vestfjarða býður einnig velkomna alla vestfirska útskriftar­nema annarra háskóla til að samfagna á háskólahátíðinni á Hrafnseyri.

Auk útskriftarnema bjóðum við hjartanlega velkomna alla fyrrverandi og núverandi nema, kennara, starfs­menn, stjórnarmenn og stofnaðila sem og aðra samstarfsaðila í gegnum tíðina.

Við vonumst til að sjá sem flesta velunnara Há­skóla­setursins á þessum hátíðardegi.

Dagskráin og rútuferð verða skipulögð með tilliti til flugs til og frá Ísafirði þennan dag, 16.06.2018.

Gert er ráð fyrir að hátíðlega athöfnin í tilefni útskriftar vestfirskra háskólanemenda verði kl. 15:00. Nánari dagskrá auglýst um leið og hún er komin á vef hrafnseyri.is.

Hátíðlega athöfnin í tilefni útskriftar er opin almenningi og allir velkomnir að samfagna með útskriftar­nemum. Athöfnin er úti undir Bælisbrekku meðan veður leyfir, annars inni í kapellu.

Ókeypis er í rútu, en nauðsynlegt að skrá sig til að tryggja sér sæti. Rútan tekur upp farþega á leiðinni, ef skráning liggur fyrir. Tilgreinið hvort þið ætlið að taka rútu frá Háskólasetri, Hlíf, Skeiði, flugvelli, Önundar­firði eða Þingeyri. Brottför frá Háskólasetri verður ekki seinna en 09:30. Mæting upp úr 09:15.

Vinsamlegast hafið samband við reception@uw.is eða í síma 450 3040 til að skrá ykkur í rútu. 

Á döfinni

Frá Háskólahátíð á Hrafnseyri.
Frá Háskólahátíð á Hrafnseyri.

CoastGIS 2018 - Ráðstefna

Dagana 27.-29. September 2018 fer fram á Ísafirði alþjóðlega ráðstefnan CoastGIS - The International Symposium of GIS and Computer Cartography for Coastal Zone Management. 

Háskólasetur Vestfjarða er gestgjafi ráðstefnunnar í ár en þetta er í þrettánda sinn sem hún er haldin. Markmið ráðstefnunnar er að miðla þekkingu, hugmyndum og reynslu af notkun gagna og upplýsingatækni til að öðlast betri þekkingu á stjórnun strandsvæða og auðlindum þeirra.    

Á döfinni