Ráðstefna um íslenska þjóðfélagið 2015

"Hvað búa eiginlega margar þjóðir í þessu litla landi?" er yfirskrift 9. ráðstefnunnar um íslenska þjóðfélagið sem verður haldin á Ísafirði dagana 17.-18. apríl 2015. Yfirskrift ráðstefnunnar vísar til þeirra fjölmörgu og ólíku þjóðfélagshópa sem búa Ísland. Möguleg umfjöllunarefni eru óþrjótandi; trúarbrögð, þjóðerni, efnahagur, búseta, stjórnmálaskoðanir, kyn, kynþættir og kynslóðabil, svo fátt eitt sé nefnt. Á ráðstefnunni gefst fræðafólki úr öllum greinum hug- og félagsvísinda kjörið tækifæri til að koma fjölbreytilegum rannsóknum á framfæri  og deila með fræðasamfélaginu. Ítarlegri upplýsingar verða sendar út í upphafi nýs árs en hér með er kallað eftir erindum og skulu ágrip berast Birnu Lárusdóttur, verkefnastjóra hjá Háskólasetri Vestfjarða birna@uwestfjords.is, eigi síðar en mánudaginn 16. febrúar 2015.

Nýir starfsmenn Háskólaseturs

Tveir nýir starfsmenn hafa verið ráðnir til Háskólaseturs Vestfjarða en það eru þær Birna Lárusdóttir, sem tekur við nýju hlutastarfi sem verkefnastjóri og Jennifer Grace Smith, sem hafa mun umsjón með ritveri Háskólaseturs (Writing Center), einnig í hlutastarfi. Birna mun sinna ýmiskonar textavinnu, vefsíðuskrifum og ráðstefnuhaldi á vegum Háskólaseturs en hún er fjölmiðlafræðingur að mennt frá University of Washington, með langa reynslu af ritsmíðum og ritstjórn auk þess að eiga að baki langan feril í sveitarstjórnarmálum.

Jennifer, sem er bandarísk, er fyrrverandi meistaranemandi í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið og útskrifaðist héðan vorið 2012. Hún er einnig með meistarapróf í kínversku frá Johns Hopkins University og hefur því afar góðan grunn til að aðstoða meistaranema í ritveri, sem margir skrifa meistararitgerðir sínar á öðru en móðurmálinu. Háskólasetrið býður þær Birnu og Jennifer velkomnar til starfa.

Tvö laus störf hjá Háskólasetrinu

Hjá Háskólasetri Vestfjarða eru nú tvö laus störf til umsóknar. Annarsvegar er um að ræða 25% starf verkefnastjóra og hinsvegar umsjón með málstofu í ritgerðasmíði (Writing Centre). Nánari upplýsingar um störfin má nálgast hér að neðan.

Tilboð í gistingu skiptistúdenta ágúst 2015

Háskólasetrið gerir ráð fyrir að halda aftur þriggja vikna íslenskunámskeið fyrir erlenda skiptistúdenta í ágúst 2015. Hér með er óskað eftir tilboðum í gistingu, mat og kennslurými fyrir námskeiðið. Sjá nánari lýsingu hér að neðan.

Rúta milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar í tengslum við ráðstefnu

Aðsókn að byggðamálaráðstefnu sem Háskólasetur, Fjórðungssamband, Vesturbyggð og Byggðastofnun standa að, er ágæt, en um 60 manns hafa skráð sig á ráðstefnuna. Áætlað er að hafa rútuferðir á milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar í sambandi við ráðstefnuna.
Eldri færslur