fimmtudagur 12. mars 2020

Viðbúnaður og upplýsingar vegna Covid 19

Háskólasetur Vestfjarða fylgist náið með þróun mála í sambandi við COVID-19 faraldurinn.

Fyrir viku var lýst yfir neyðarstig almannavarna, sem hefur þó lítil bein áhrif á starfsemi Háskólaseturs. Meðan þetta breytist ekki, höldum við starfseminni áfram að sem mestu leyti óbreyttri. Eins og annarrstaðar leggjum við áherslu á hreinlæti og annað sem er til þess fallið að hægja á útbreiðslu veirusýkingarinnar.

Hins vegar kann staðan að breytast. Ef svo er munum Háskólasetrið laga sig að aðtæðum og fylgja þeim fyrirmælum sem gefin eru út á hverjum tíma. Við munum gera það með það að leiðarljósi að veita nemendum áfram bestu mögulegu þjónustu á sama tíma og við uppfyllum settar öryggisráðstafanir.

Viðbúnaður vegna Covid 19

Eins og kunnugt er hefur Ríkislögreglustjóri lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis. 

Nemendur og starfsfólk Háskólaseturs Vestfjarða eru minntir á mikilvægi þess að fylgja leiðbeiningum sóttvarnalæknis, nýjustu upplýsingar er ávallt að finna á vef Landlæknisembættisins: www.landlaeknir.is  Þar er einnig að finna spurningar og svör um sjúkdómseinkenni og annað varðandi kórónaveiruna og COVID-19. 

Hreinlæti/þrif

Fyrst og síðast er handþvottur mikilvægasta sýkingavörnin sbr. leiðbeiningar Landlæknisembættisins og Vísindavefs Háskóla Íslands. Jafnframt hefur verið lögð aukin áhersla á þrif í Háskólasetri. 

Einkenni/veikindi

Áríðandi er að þeir sem finna fyrir sjúkdómseinkennum eða hafa mögulega verið útsettir fyrir smiti, t.d. vegna ferðalaga, hringi í síma 1700 og fái leiðbeiningar. Nemendum hjá Háskólasetri Vestfjarða er sömuleiðis velkomið að hafa samband við starfsmenn hvenær sem er. Þeir sem finna fyrir einkennum haldi sig heima og komi alls ekki veikir í Háskólasetrið. Nemendur sem telja sig tilheyra áhættuhópum mættu gjarnan láta vita af sér.

Hættusvæði/ferðalög

Nemendur og starfsfólk er beðið sérstaklega að fylgjast vel með nýjustu upplýsingum um þau landsvæði sem skilgreind eru sem hættusvæði. Fólk ætti ekki að ferðast til þessara svæða en ef ekki verður hjá því komist, þarf fólk að fara í sóttkví skv. leiðbeiningum sóttvarnarlæknis og Landlæknis.

Samkomur/viðburðir

Ekki er búið að lýsa yfir samkomubanni, þó það kunni að breytast á einhverju tímapunkti. Háskólasetrið stendur ekki fyrir neinum stórviðburðum þetta vor. Þátttakendur í ráðstefnu um íslenska þjóðfélagið verða upplýstir sérstaklega.

Nám og kennsla

Nemendur í staðnámi þurfa að reikna með að námskeið verði kennd í fjarnámsformi, ef kemur til þess að kennari geti ekki komið. Háskólasetrið vinnur að undirbúningi fyrir slíkt ef til kemur.

Komi til þess að gefin verði fyrirmæli um samkomubanni eða skólum lokað af yfirvöldum mun Háskólasetrið leggja sig fram um að kennsla haldi áfram í fjarnámsformi svo nám riðlist sem minnst.

Í núverandi stöðu getur Háskólasetrið uppfyllt hlutverk sitt sem þjónustumiðstöð fyrir vestfirska fjarnema sem koma hingað í próf.

Þátttakendur sem koma í stök námskeið þetta vor eru beðnir að hafa samband. Háskólasetrið mun víkka út sína endurgreiðslustefnu fyrir vormisserið.

Þjónusta

Grunnþjónustu við nemendur og starfsfólk verður haldið áfram eins og kostur er þó að til komi samkomubann eða lokun skólans. Þjónusta gæti þó takmarkast við símasamskipta eða aðrar rafrænnar samskiptaleiðir.