fimmtudagur 31. mars 2011

Þriðja Húmorsþing Þjóðfræðistofu

Þriðja Húmorsþing Þjóðfræðistofu er haldið 1. og 2. apríl 2011. Húmorsþingið er bæði vetrarhátíð og málþing um húmor sem fræðilegt viðfangsefni. Það er nú haldið í þriðja sinn á Hólmavík á Ströndum. Á málþinginu munu fræðimenn stíga á stokk og varpa ljósi á nýjustu rannsóknir og miðlun á húmor. Rætt verður um hin ýmsu form húmors, svo sem brandara, uppistand, satíru og íroníu ásamt margvíslegri iðkun þeirra í daglegu lífi. Fjallað verður um húmor sem valdatæki í baráttu þjóðfélagshópa og ýmsar birtingarmyndir húmors í bókmenntum, fjölmiðlum, ljóð- og myndlist. Í sérstakri málstofu verður rætt um húmor jaðars og miðju; þéttbýlis og dreifbýlis; valdahópa og þeirra valdaminni. Nemendur eru sérstaklega velkomnir og stendur til boða að sitja málþingið og skrifa um það námsritgerðir í samstarfi við fyrirlesara. Á meðal þátttakenda verða Íris Ellenberger, Eva Þórdís Ebenezersdóttir, Ása Ketilsdóttir, Kristinn Schram, Saga Garðarsdóttir, Þorsteinn Guðmundsson, Heimir Janusarson, Jón Jónsson og meðlimir Upp, upp mín sál og Uppistöðufélagsins.

Auk fræðilegrar dagskrár verður meðal annars á boðstólnum kankvís barþraut (pub quiz), kvikmyndasýning á heimildamyndinni Uppistandsstelpur og heilmikil uppistandsdagskrá. Auk þess verður í þriðja sinn efnt til grínkeppninnar sívinsælu Orðið er laust.


Sjá upplýsingar um dagskrá, ferðir og gistingu hér á eftir á heimasíðu Þjóðfræðistofu.