mánudagur 3. desember 2012

Styrkir úr þróunarsjóði innflytjendamála 2012

Innflytjendaráð auglýsir eftir umsóknum um styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála. Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir og þróunarverkefni á sviði innflytjendamála með það að markmiði að auðvelda gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags. Að þessu sinni verður sérstök áhersla lögð á eftirfarandi viðfangsefni:
• Þróunarverkefni sem styðja við félög innflytjenda sem vinna að hagsmunamálum innflytjenda.
• Þróunarverkefni sem stuðla að stofnun félaga innflytjenda sem vinna að hagsmunamálum þeirra.
• Þróunarverkefni sem vinna gegn þeim fordómum sem innflytjendur verða fyrir í samfélaginu.
• Þróunarverkefni sem hvetja til virkrar þátttöku innflytjenda í samfélaginu.
Önnur verkefni koma einnig til álita.

Styrkir verða almennt veittir félögum, samtökum og opinberum aðilum. Grasrótar- og hagsmunafélög innflytjenda eru sérstaklega hvött til þess að sækja um styrki úr sjóðnum. Einstaklingum verða að jafnaði einungis veittir styrkir til rannsókna. Til ráðstöfunar eru 10 milljónir króna. Styrkir geta numið að hámarki 75% af heildarkostnaði verkefnis. Unnt er að sækja um á íslensku og ensku.
Umsóknarfrestur er til 4. janúar 2013. Aðgangur að umsóknareyðublöðum er á vef velferðarráðuneytisins og eru umsækjendur sérstaklega hvattir til þess að nýta sér rafræna umsóknarformið sem er aðgengilegt með greinargóðum leiðbeiningum um notkun þess.

Á vef ráðuneytisins er einnig að finna stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda, framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda og reglur þróunarsjóðs innflytjendamála með nánari upplýsingum um skilyrði styrkveitinga. Trúnaðar er gætt við meðferð umsókna.

Upplýsingar um Þróunarsjóð innflytjenda ásamt umsóknareyðublaði fyrir umsókn um styrk.

Nánari upplýsingar fást í velferðarráðuneyti í síma 545 8100 og með tölvupósti á netfangið postur@vel.is

Velferðarráðuneytinu, 1. desember 2012