fimmtudagur 25. nóvember 2010

Styrkir úr þróunarsjóði innflytjendamála 2010

Innflytjendaráð auglýsir eftir umsóknum um styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála. Sjóðurinn hefur að markmiði að auðvelda gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags með því að stuðla að rannsóknum og þróunarverkefnum á sviði innflytjendamála.

Sjóðurinn veitir almennt félögum, samtökum og opinberum aðilum, ekki síst grasrótar- og hagsmunafélögum innflytjenda, styrki. Einstaklingum verða að jafnaði einungis veittir styrkir til rannsókna. Til ráðstöfunar eru 12 milljónir króna og geta styrkir verið að hámarki 75% heildarkostnaðar verkefnis. Unnt er að sækja um á íslensku og ensku og er sótt um á sérstöku eyðublaði sem er aðgengilegt á heimasíðu félags- og tryggingamálaráðuneytis.

Þróunarsjóður innflytjendamála var stofnaður árið 2007 og fer úthlutun fram árlega. Háskólasetur Vestfjarða hefur frá upphafi sinnt umsýslu með sjóðnum.

Umsóknarfrestur er til 20. desember 2010. Ýmsar upplýsingar um sjóðinn ásamt samantektum eldri verkefna er að finna hér á vef Háskólaseturs, sjá Sjóðir í vörslu Háskólaseturs í stikunni hér til vinstri.