miðvikudagur 21. maí 2008

Skerjafjörður - ástand, stjórnun og sjálfbær nýting

Föstudaginn 23. maí kynnir Sigríður Ólafsdóttir, fagstjóri meistaranáms í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða, meistaraprófsverkefni sitt í Umhverfis- og auðlindastjórnun við Háskóla Íslands. Kynningin fer fram klukkan 12 í Öskju náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.


Rannsóknarverkefnið snýr að afmörkuðu strandsvæði á Íslandi, Skerjafirði. Fjörðurinn er 18 km2 að stærð og afmarkast af sveitarfélögunum fimm Seltjarnarnesi, Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Álftanesi. Rannsóknarspurning verkefnisins er hvort strandsvæði Skerjafjarðar séu nýtt á sjálfbæran hátt og ef svo er ekki þurfa þau nýrra stjórnunarhátta við? Til að svara spurningunni er tekið til athugunar: Vitneskja um lífríki og ferla, ástand og heilnæmi og virði strandsvæða fjarðarins auk virkni lagasetningar og stjórnunarfyrirkomulags fyrir strandsvæði. Að lokum er fjallað um samþættingu í stjórnun strandsvæða (e. Integrated coastal zone management) sem mörg af okkar nágrannaríkjum hafa tekið upp til að auka sjálfbærni í nýtingu strandsvæða. Sú umfjöllun nýtist vel til að finna nýjar leiðir til að bæta stjórnun íslenskra strandsvæða.


Niðurstaða verkefnisins er sú að strandsvæði Skerjafjarðar eru ekki nýtt á sjálfbæran hátt. Þekking er lítil og brotakennd um svæðið og lagsetning um eignar- og umsýslumörk sveitarfélaga á haf út er úreld og ekki í takt við nýtingu. Enn fremur er stefnumörkun stjórnvalda um nýtingu svæðanna óljós og töluvert vantar upp á lagasetningu og samþættingu í stjórnun til að framkvæmdaráætlanir og stjórntæki, skipulags- og byggingarlög og lög um umhverfismat áætlana, virki sem skyldi. Einnig er áberandi að fagleg vinnubrögð eru ekki viðhöfð í skipulagsvinnu sumra sveitarfélaga. Til að bæta úr vandkvæðum í nýtingu og stjórnun strandsvæða hér á landi er lagt til að stjórnvöld endurskilgreini strandsvæði og að þau verði í umsjón og eign sveitarfélaganna en að framkvæmdaréttur og nýting þeirra verði takmörkuð við umsagnir sérstakrar nefndar sem fer með málefni haf- og strandsvæða, svokölluð haf- og strandvísindanefnd. Nefndina munu skipa fagaðilar, vísindamenn og aðilar frá stofnunum sem hafa málefni strandsvæða á sinni könnu. Enn fremur er lagt til að mörkuð verði stefna um nýtingu auðlinda og skipulag strandsvæða innan landsskipulags, sem kveðið er á um í frumvarpi um ný skipulagslög.

Umsjónarmaður verkefnisins er Ingibjörg Jónsdóttir, leiðbeinandi, Salvör Jónsdóttir og prófstjóri Guðrún Pétursdóttir.