föstudagur 5. ágúst 2016

Sjávarflóðarannsóknir: Franskir verkfræðinemar kynna rannsóknarverkefni

Sjávarflóðarannsóknir við Háskólasetur Vestfjarða og Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands – franskir verkfræðinemar ljúka við rannsóknarverkefni.  

Í sumar hafa tveir nemar í hafverkfræði frá SeaTech-stofnuninni við Toulon Háskóla í Frakklandi, þau Elodie Jacquel og Jean-Baptiste Samson verið í starfsnámi við Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands. Þau eru senn á förum og kynna verkefnið á Háskólasetrinu föstudaginn 5. ágúst kl. 15:00-16:30 þar sem þau munu sýna og ræða það helsta í afrakstri sumarsins. Kynningin er opin almenningi og er haldin á ensku.

 

Sjávarflóð verða við þær aðstæður að djúpar lægðir valda hækkun á sjávarborði vegna þrýstifalls, - hækkun sem magnast að auki við ferð inn á grunnsævi. Í flestum tilfellum er þessi hækkun hverfandi miðað við breytileg sjávarföll sem ráðast af gangi himintungla. Þegar svo ber undir að djúp lægð og stórstreymi fara saman verður úr sjávarflóð sem getur valdið usla við ströndina, einkum og sér í lagi þegar veðurhæðin er mikil og við bætist ágjöf af vindöldu.

Tilefni rannsóknanna er að undirbyggja sjávarflóðamat við gerð skipulags á lágsvæðum. Markmið verkefnisins var að fá fram úr mæligögnum á sjávarhæð nákvæmari tölfræðilegar upplýsingar til að ákvarða tíðni sjaldgæfra [stærri] sjávarflóða sem valda meiri usla á lágsvæðum í strandbyggðum. Að auki næst fram þekking sem nota má til að ákvarða út frá veðurspám hámarksflóðhæð yfirvofandi sjávarflóða sem nýtist viðbragðsaðilum til að undirbúa viðbúnað með það að markmiði að forða tjóni þar sem og þegar því verður við komið.

Aðferðin felst í að greina þekkt sjávarföll úr mælingum og skoða með því samspil loftþrýstingsáhrifa og hæð áhlaðanda af skammtímabreytingum á loftþrýsting við ferðir lægðakerfa. Verkefnið hefur skilað leiðum til að aðgreina langtímaáhrif á sjávarflóð af völdum loftþrýsingsbreytinga samfara hlýnun jarðar og hækkun sjávarborðs vegna bráðnunar jökla og landsigs. Einnig hafa verið greind í gögnunum áhrif víðáttumikilla loftþrýstikerfa sem stjórna loftslagshringrásinni í Norður Atlantshafi.


Élodie Jacquel og Jean-Baptiste Samson hafa verið í starfsnámi við Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands.
Élodie Jacquel og Jean-Baptiste Samson hafa verið í starfsnámi við Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands.