mánudagur 2. desember 2013

Ráðstefna um hafsbotn og lífríki hans

[mynd 1 h]Árleg ráðstefna Hafrannsóknastofnunar um lífríki hafsins og umhverfi þess, verður haldin 25. febrúar 2014. Að þessu sinni verður efni ráðstefnunnar "Hafsbotn og lífríki á botninum". Fjallað verður um rannsóknir á hafsbotninum við Ísland, um lífverur botnsins og tengsl þeirra við hann og sjóinn umhverfis. Hafsbotninn, lögun hans og gerð, hefur mikil áhrif á lífsskilyrði í sjónum. Hann hefur áhrif á samsetningu botnlífveranna og einnig á þær lífverur sem leita sér fæðu eða hrygna á botni.

Hafrannsóknastofnun hvetur alla sem fást við rannsóknir á sjávarbotni og lífverum hans til að kynna rannsóknir sínar á ráðstefnunni. Ráðstefnan verður í fyrirlestrasal stofnunarinnar, Skúlagötu 4 og er öllum opin.

Vinsamlega sendið ágrip á netfangið radstefna (hjá) hafro.is fyrir 1. febrúar 2014. Rannsóknir verða kynntar í fyrirlestrum og á veggspjöldum.

Í undirbúningsnefnd fyrir ráðstefnuna eru Guðrún Helgadóttir, Karl Gunnarsson, Sigurborg Jóhannsdóttir og Sólveig R. Ólafsdóttir öll hjá Hafrannsóknastofnun.

Leiðbeiningar:
Ráðstefnunni er ætlað að varpa ljósi á stöðu þekkingar á hafsbotni við Ísland og lífverum sem lifa í nánum tengslum við hann. Erindi og veggspjöld munu fjalla um rannsóknir tengdar efni ráðstefnunar.

Ágrip
Ágrip fyrir erindi og veggspjöld þarf að senda inn fyrir 1. febrúar 2014, hvort sem er á íslensku eða ensku. Í ágripinu þarf að koma fram heiti erindis eða veggspjalds, nöfn höfunda, nafn þess sem kynnir efnið skal vera undirstrikað og jafnframt þarf að gefa upp tölvupóstfang hans. Ágripin verða birt á vefsíðu ráðstefnunnar (http://www.hafro.is/radhafsbotn14/index.html) en verða einnig bundin inn og dreift á ráðstefnunni. Þegar ágripið er sent inn, þarf að taka fram hvort óskað er eftir að flytja erindi eða að sýna veggspjald. Miða skal við að ágripið sé um 250 orð.

Veggspjöld
Veggspjöld geta verið allt að 90 cm á breidd og 120 cm á hæð.

Erindi
Erindi geta verið hvort sem er á íslensku eða ensku. Ráðgert er að hvert erindi taki 15 mínútur og auk þess er gert ráð fyrir 5 mínútum fyrir umræður.