þriðjudagur 23. apríl 2013

Próftímabil og aðstöðugjöld

Í tengslum við frétt á Sunnlenska.is vill Háskólasetur Vestfjarða benda á, nú í byrjun próftímabils, að hér eru ekki áform um að taka upp próftökugjald. Stefna Háskólasetursins er sú að fá sem flesta til að dvelja sem allra lengst á Vestfjörðum, hvort sem um era ð ræða vestfirska námsmenn eða gesti. Einn liður í því er að veita nemendum þann möguleika að dvelja á Vestfjörðum á próftímabilinu og taka sín próf í gegnum Háskólasetrið. Próftökugjöld eru því engin. Þetta gildir um norðanverða Vestfirði, sunnanverða Vestfirði og Strandir.

Nýverði samdi Háskólasetrið við Fræðslumiðstöð Vestfjarða varðandi þjónustu við nemendur í prófum á sunnanverðum Vestfjörðum og á Ströndum. Tengiliður nemendanna er ávallt kennslustjóri Háskólaseturs, sem hefur samband við starfsmann Fræðslumiðstöðvar á staðnum. Það er von Háskólaseturs að nemendur á sunnanverðum Vestfjörðum og á Ströndum, en einnig gestir á svæðinu, nýti sér þennan möguleika í auknum mæli.


Til stendur að nýta fé úr Sóknaráætlunarfé fyrir uppbyggingu lesaðstöðu á Patreksfirði og á Ströndum og bætir það vonandi umgjörð fjarnáms á þeim stöðum.

Aðstöðugjald við Háskólasetrið er 2.000 kr., innifalið í því er aðstaða, nettenging og ljósritun/prentun (70 blöð). Nemendur sem eingöngu taka próf við Háskólasetur en nýta ekki þjónustuna að öðru leyti greiða ekki aðstöðugjald. Vert er þó að benda á að aðstaðan er mjög góð, hvort heldur sem er til prófaundirbúnings eða annarrar verkefnavinnu.
Nemendur, sem ekki eru skráðir fjarnemar á Vestfjörðum, en sem hafa hug á að taka próf fyrir vestan, þurfa að tilkynna það til síns háskóla, sem kemur upplýsingum áfram til kennslusjtóra Háskólaseturs.

Starfsmenn Háskólaseturs óska öllum námsmönnum góðs gengis í prófunum.