mánudagur 26. nóvember 2007

Opin ráðstefna um rannsóknir á þorski 25. og 26. janúar

Hafrannsóknastofnunin mun halda opna ráðstefnu um rannsóknir á þorski á Íslandsmiðum dagana 25. og 26. janúar 2008, í bíósal á Icelandair Hótel LOFTLEIÐUM. Á ráðstefnunni verður fjallað um stöðu þekkingar á líffræði og stofnvistfræði þorsks á Íslandsmiðum. Gert er ráð fyrir að hvert erindi á ráðstefnuninni verði tuttugu mínútur að meðtöldum tíma til umræðna. Gefinn er kostur á að flytja erindi á íslensku eða ensku og verða þau túlkuð á ensku eða íslensku eftir þörfum.

Einnig verður gefinn kostur á að kynna  rannsóknir á veggspjöldum. Þeim sem vilja kynna rannsóknir sínar á  ráðstefnunni er bent á að senda inn titil á erindi eða veggspjaldi fyrir  10. desember 2007. Ágrip af erindi eða veggspjaldi þarf síðan að senda  fyrir 1. janúar 2008. Ágrip erinda og veggspjalda verða prentuð í bæklingi  fyrir ráðstefnuna. Titla og ágrip ásamt nafni/nöfnum höfunda þarf að senda  í tölvupósti á hafro@hafro.is og merkja það vandlega ÞORSKRÁÐSTEFNA.  Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á www.hafro.is/radstefna.