Okkur vantar gestgjafa fyrir erlenda námsmenn!
Í næsta mánuði á Háskólasetrið von á hópi af bandarískum háskólanemum sem mun dvelja hér 20. júní – 4. júlí. Þessum ungmennum er boðin gisting í heimahúsum og eru nokkrar fjölskyldur búnar að gefa kost á sér í þetta skemmtilega verkefni. Hópur ársins er þó heldur stærri en undanfarin ár og því vantar okkur nokkrar fjölskyldur til viðbótar. Markmiðið með að bjóða gistingu í heimahúsum er að nemendurnir fái menninguna beint í æð og ekki síst tækifæri til að æfa sig í íslensku. Heimagisting hefur verið í boði hér á svæðinu undanfarin tvö sumur og gefist mjög vel. Hafa nemendurnir fengið gistingu hjá fjölskyldum ýmist á Ísafirði, í Hnífsdal eða í Bolungarvík. Mikil ánægja hefur verið meðal fjölskyldna sem og gesta þeirra og góð tengsl hafa myndast.
Hópurinn verður hér á vegum School for International Training (SIT) sem er háskóli í Vermont í Bandaríkjunum. Háskólasetrið er samstarfsaðili SIT og nemendahópurinn dvelur í um sjö vikur á Íslandi og situr hér námsáfanga í endurnýjanlegri orku og umhverfishagfræði. Námið fer að mestu fram hér á norðanverðum Vestfjörðum og í Reykjavík.
Tímabilið sem um ræðir í ár er 20. júní- 4.júlí. Hver gestgjafafjölskylda fær greitt fyrir að taka þátt. Gesturinn þarf helst að fá sér herbergi og hann/hún þarf að fá morgun- og kvöldmat virka daga, en allar máltíðir um helgar.
Við hvetjum áhugasama til að hafa samband við Pernillu Rein verkefnastjóra, s. 820-7579, pernilla@uwestfjords.is eða við Astrid Fehling, fagstjóra, astrid.fehling@sit.edu, s. 692-6178.