mánudagur 31. janúar 2011

Nýtt ritrýnt tímarit um íslenskt þjóðfélag

Félagsfræðingafélag Íslands vekur athygli á nýju ritrýndu tímariti, Íslenska þjóðfélagið, sem félagði gefur út. Tímaritinu er ætlað að vera vettvangur fyrir fjölbreytilegar rannsóknir á íslenska þjóðfélaginu og hvatt er til framlags frá öllum sérsviðum hug- og félagsvísinda sem aukið geta skilning á íslenska þjóðfélaginu sem félagsfræðilegu og félagsvísindalegu viðfangsefni.

Óskað er eftir handritum sem geta átt erindi í tímaritið.

Höfundar og ritrýnar tímaritsins eru meðal helstu sérfræðinga heims um íslenskt þjóðfélag og er því ætlað að vera meðal helstu fræðitímarita á því sviði. Allar greinar eru ritrýndar nafnlaust af 2-3 ritrýnum sem jafnframt njóta nafnleyndar. Ákvörðun um birtingu, höfnun eða boð um endurgerð er að jafnaði tekin innan þriggja mánaða frá því að handrit berst.

Tímaritið er gefið út í opnum aðgangi á netinu og birtast greinar jafnóðum og þær hafa verið samþykktar. Hver árgangur tímaritsins er jafnframt gefinn út á prentuðu formi í árslok. Í fyrsta árgangi tímaritsins (2010) birtust eftirfarandi fjórar greinar:

Guðmundur Ævar Oddsson. 2010. Stéttavitund Íslendinga í kjölfar efnahagshruns. Íslenska þjóðfélagið, 1, 5-26.
Þorgerður Einarsdóttir. 2010. Kreppur og kerfishrun í ljósi kyngerva og þegnréttar. Íslenska þjóðfélagið, 1, 27-48.
Jón Rúnar Sveinsson. 2010. Kreppa, hugmyndafræði og félagslegt húsnæði. Íslenska þjóðfélagið, 1, 49-68.
Sigrún Ólafsdóttir og Jón Gunnar Bernburg. 2010. Fordómar og geðræn vandamál: Samanburður á þremur löndum. Íslenska þjóðfélagið, 1, 69-94.

Tímaritið er öllum opið og birtist á heimasíðunni www.thjodfelagid.is. Þar má finna allar birtar greinar og nánari upplýsingar um ritstjórnarstefnu, frágang greina og verklag við ritrýni. Höfundar eru jafnframt hvattir til að skila greinum rafrænt á heimasíðu tímaritsins.

Ritstjórar tímaritsins eru Ingi Rúnar Eðvarðsson (ire@unak.is) og Þóroddur Bjarnason (thoroddur@unak.is) og veitum við allar nánari upplýsingar um tímaritið. Ritstjórn skipa jafnframt Andrea Hjálmsdóttir, Hermann Óskarsson, Kjartan Ólafsson, Kolbeinn Stefánsson, Kristín Þóra Kjartansdóttir og Þóra Kristín Þórsdóttir.