fimmtudagur 8. apríl 2010

Nýsköpunarsjóður námsmanna 2010

Umsóknarfrestur um styrki úr Nýsköpunarsjóði námsmanna fyrir sumarið 2010 hefur verið framlengdur til 12. apríl n.k.

Fyrir helgi var tilkynnt að ríkissjóður ætli að auka framlag sitt til Nýsköpunarsjóðs námsmanna úr 20 milljónum í 90 milljónir og einnig að Reykjavíkurborg auki sitt framlag úr 20 milljónum í 30 milljónir. Þetta er mjög veruleg hækkun og sjóðurinn getur því styrkt helmingi fleiri verkefni en í fyrra. Þá úthlutaði sjóðurinn um 56 milljónum en árið 2008 einungis tæpum 40 milljónum.

Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkir nýsköpunar- og rannsóknarverkefni sem unnin eru af nemendum á grunn- og meistarastigi yfir sumartímann. Nemendur þurfa að hafa umsjónarmann eða leiðbeinanda og bæði umsjónarmenn og nemendur geta sótt um í sjóðinn. Ekki er t.d. nauðsynlegt að umsjónarmaður, sem sækir um fyrir tiltekin fjölda nemenda, gefi upp nöfn þeirra í umsókninni.

Styrkurinn nemur 140.000 krónum á mánuði fyrir hvern nemanda í allt að þrjá mánuði.

 

Við mat á umsóknum lítur sjóðurinn sérstaklega til eftirfarandi þátta:

 

1. Mun verkefnið leiða til nýsköpunar (þekkingar og/eða tækni).
2. Hverjir eru möguleikar á hagnýtingu þess?
3. Mun það stuðla að samstarfi háskóla, stofnana og fyrirtækja?
4. Gefur það möguleika á sjálfstæðu framlagi nemanda?

 

Háskólafólk er hvatt til að nýta sér þau tækifæri sem felast í nýsköpunar- og rannsóknarsamstarfi við nemendur. Nemendur fá t.d. aukna færni og betri skilning á mikilvægi rannsókna og nýsköpunar. Að sama skapi hefur reynslan sýnt að framlag nemenda til rannsókna og þróunar hugmynda er oft mikilsvert.

 

Nánari upplýsingar um Nýsköpunarsjóð námsmanna er að finna á heimasíðu Rannís. Jafnframt má leita til Guðnýjar Hallgrímsdóttur; s. 515-5818 (gudny@rannis.is) eða Stefaníu Óskarsdóttur (stefosk@hi.is).