þriðjudagur 6. október 2009

Nýr fagstjóri ráðinn til starfa

Háskólasetur Vestfjarða auglýsti á dögunum stöðu fagstjóra vegna fæðingarorlofs Sigríðar Ólafsdóttur.


Háskólasetrinu bárust 13 umsóknir um starfið, þar af voru fjórir umsækjendur með doktorsprófi, en allir umsækjendur voru með a.m.k eina meistaragráðu. Níu umsækjendur voru með gráðu á sviði strandsvæðastjórnunar, auðlindarstjórnunar eða haffræða. Sex umsækjendur voru útlendingar. Þar sem hvorki er um kennslu- né rannsóknarstarf að ræða, heldur stjórnun námsleiðar, vó stjórnunarreynsla þungt. Gert var forval og átta umsækjendum boðið til viðtals, beint eða í gegnum netfjarfund.


Ráðningarnefndin ákvað að ráða Dagnýju Arnarsdóttur í starfið.


Dagný hefur lokið meistaragráðu í umhverfis- og auðlindastjórnun frá Háskóla Íslands. Hún hefur reynslu af starfsmannastjórnun, viðburðarstjórnun, kynningarmálum og kennslu. Hún var nú síðast starfsmaður Félags umhverfisfræðinga á Íslandi og verkefnastjóri við alþjóðlegt nám í umhverfis- og auðlindastjórnun við Háskóla Íslands.


Dagný tekur formlega til starfa 01.01.10.