föstudagur 7. nóvember 2014

Nýir starfsmenn Háskólaseturs

Tveir nýir starfsmenn hafa verið ráðnir til Háskólaseturs Vestfjarða en það eru þær Birna Lárusdóttir, sem tekur við nýju hlutastarfi sem verkefnastjóri og Jennifer Grace Smith, sem hafa mun umsjón með ritveri Háskólaseturs (Writing Center), einnig í hlutastarfi. Birna mun sinna ýmiskonar textavinnu, vefsíðuskrifum og ráðstefnuhaldi á vegum Háskólaseturs en hún er fjölmiðlafræðingur að mennt frá University of Washington, með langa reynslu af ritsmíðum og ritstjórn auk þess að eiga að baki langan feril í sveitarstjórnarmálum.

Jennifer, sem er bandarísk, er fyrrverandi meistaranemandi í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið og útskrifaðist héðan vorið 2012. Hún er einnig með meistarapróf í kínversku frá Johns Hopkins University og hefur því afar góðan grunn til að aðstoða meistaranema í ritveri, sem margir skrifa meistararitgerðir sínar á öðru en móðurmálinu. Háskólasetrið býður þær Birnu og Jennifer velkomnar til starfa.