miðvikudagur 17. mars 2010

Húmorsþing Þjóðfræðistofu

Annað Húmorsþing Þjóðfræðistofu verður haldið laugardaginn 20. mars næstkomandi. Húmorsþingið er bæði vetrarhátíð og málþing um húmor sem fræðilegt viðfangsefni. Það er nú haldið í annað sinn á Ströndum.

 

Á málþinginu munu fræðimenn stíga á stokk og varpa ljósi á nýjustu rannsóknir og miðlun á húmor. Rætt verður um hin ýmsu form húmors, svo sem brandara, uppistand, satíru og íroníu ásamt margvíslegri iðkun þeirra í daglegu lífi. Fjallað verður um húmor sem valdatæki í baráttu þjóðfræðihópa og ýmsar birtingarmyndir húmors í fjölmiðlum. Nemendur í þjóðfræði eru sérstaklega velkomnir og stendur til boða að sitja málþingið og skrifa um það námsritgerð í þjóðfræði við Háskóla Íslands.

 

Um kvöldið verður boðið til skemmtunar en á boðstólnum verður meðal annars barþraut (pub quiz) um íslenska kímni, uppistand Uppistöðufélagins, Þorsteins Guðmundssonar og Helga Svavars Helgasonar. Auk þess verður í annað sinn efnt til brandarakeppninnar sívinsælu Orðið er laust.

 

Dagskrá Húmorsþings