þriðjudagur 1. apríl 2008

Hugvísindaþing

4. og 5. apríl í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

„... fræðimenn búa til gátur"

 

Hugvísindaþing verður haldið í Aðalbyggingu Háskólans næstkomandi föstudag og laugardag. Að því standa Hugvísindastofnun og Guðfræðistofnun.  Fyrirlestrar á þinginu verða á áttunda tuginn, þar sem fræðimenn innan Háskólans og utan kynna rannsóknir sínar á viðfangsefnum - gátum - sem spanna hið víða svið hugvísindanna. Rannsóknarverkefnið "Tilbrigði í setningagerð" heldur nokkurs konar uppskeruhátíð með málstofu sem spannar báða dagana og ber hið ískyggilega nafn "Íslenskan öll?" og sagnfræðingar bjóða upp á hlaðborð til heiðurs Gísla Gunnarssyni prófessor. Á vegum
kennara í spænsku, frönsku og ensku er fjölbreytt málstofa sem nefnist "Við landamærin" og sex bókmenntafræðingar standa að málstofunni "Staðir og Staðleysur: Erindi um íslenskar nútímabókmenntir". Fyrirlestrar um nám og kennslu annars máls verða í tveimur málstofum, "Kennsla annars máls" og "Annarsmálsfræði - Ný fræðigrein á Íslandi". Sömuleiðis verður fjallað um fornbókmenntir í tveimur málstofum, "Njála: myndmál, merking og mannlýsingar" og "Veislur og brennur: sagnfræði og skáldskapur í fornsögum".  Heimspekingar bjóða upp á málstofuna "Úr sögu heimspekinnar" og "Náttúran í ljósi fyrirbærafræði og austrænnar heimspeki", þar sem rannsóknarverkefni sem fékk Rannís-styrk nú í ársbyrjun er kynnt. Austrænir straumar koma einnig við sögu í málstofunni "Trú, menning, samfélag" þar sem segir frá Skriðuklaustri, trú og húmanisma í ljóðum Snorra Hjartarsonar og austrænum áhrifum á trúarlíf Íslendinga á 20. öld.

 

Hugvísindaþing hefst kl. 13 föstudaginn 4. apríl og þráðurinn verður tekinn upp kl. 12 daginn eftir.

Dagskrána er að finna á heimasíðu Hugvísindastofnunar: http://www.hugvis.hi.is/

Allir velkomnir.