föstudagur 3. maí 2013

Háskólagátt Bifrastar kynnt á Ísafirði

Háskólasetur Vestfjarða og Fræðslumiðstöð Vestfjarða munu miðvikudaginn 8. maí standa fyrir kynningu á Háskólagátt Bifrastar. Kynningin fer fram í húsakynnum Fræðslumiðstöðvarinnar á milli klukkan 12:00 - 15:00. María Einarsdóttir mun koma frá Bifröst og kynna námsleiðina og inntökuskilyrðin, en jafnframt svara þeim spurningum sem upp kunna að koma.

Nám í Háskólagátt er annarsvegar ætlað þeim sem ekki fullnægja inntökuskilyrðum háskóla um stúdentspróf og hinsvegar nemendum sem vilja styrkja stöðu sína áður en sótt er um að komast í háskóla, til dæmis þeim sem hafa verið lengi frá námi. Kjarnagreinar framhaldsskólans, íslenska, stærðfræði og enska eru fyrirferðarmest í Háskólagáttinni, en nemendur fá einnig þjálfun í upplýsingatækni, bókfærslu og dönsku, auk þess sem þeir ljúka námskeiðum í lögfræði og heimspeki sem bæði eru mikilvægur undirbúningur fyrir háskólanám í öllum greinum félagsvísinda. Í Háskólagátt er boðið upp á staðnám og fjarnám.

Miðað við að nemendur séu í fullu námi, tekur Háskólagáttin eitt ár og skráningargjöld fyrir það ár er 89.000 kr.

Fyrir þá sem vantar grunninn upp í Háskólagáttina, býður Fræðslumiðstöðin upp á Menntastoðir sem er 660 kennslustunda námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Menntastoðir eru krefjandi nám fyrir einstaklinga, 23 ára og eldri og er tilvalin námsleið fyrir þá sem vilja hefja nám á ný og ná sér í grunnfögin í framhaldsskóla. Markmið Menntastoða er að stuðla að jákvæðu viðhorfi námsmanna til áframhaldandi náms og auðvelda þeim að takast á við ný verkefni. Í náminu er lögð áhersla á að nemendur læri að læra, efli sjálfstraust sitt og lífsleikni. Gefst fólki einnig kostur á að kynna sér þennan undanfara að Háskólagátt Bifrastar.


Kynningin fer fram í Fræðslumiðstöð Vestfjarða
Kynningin fer fram í Fræðslumiðstöð Vestfjarða