miðvikudagur 7. nóvember 2007

Fyrirlestrar óskast: Kvennasöguþing 2008

Hér með eru fræðimenn á sviði kvennasögu og kynjasögu, og tengdra fræða, minntir á norræna kvennasöguþingið sem haldið verður við Háskóla Íslands dagana 11.-14. ágúst 2008.

Yfirskrift þingsins er Kyngervi, rými og mörk.

Með því ávarpar þingið þrjú mikilvæg hugtök fræðasviðsins. Í fyrsta lagi kyngervishugtakið (gender) sem hefur verið eitt helsta

greiningarhugtak kvennasögu- og kynjasögurannsókna í rúmlega tvo áratugi. Í öðru lagi rými og mörk (space, borders), sem oftar en ekki eru notuð saman. Fræðimenn hafa í vaxandi mæli beint sjónum að þeim rýmum sem konum hafa verið ætluð og spurt um sveigjanleika þeirra, og hvernig þau hafa breyst í tímans rás. Sjónum er því beint að rými og mörkum í tengslum við m.a. hugmyndina um aðskilin svið, stjórnmálaþátttöku, landafræði, kynhneigð o.s.frv.


Á ráðstefnunni verða þrír lykifyrirlesarar, pallborðsumræður, málstofur og hringborðsumræður tengdar yfirskrift þingsins.
Upplýsingar um yfirskriftir málstofa og hringborða, ásamt lýsingum, er að finna á veffanginu: www.qhist08.is

Lykilfyrirlesarar þingsins eru sagnfræðingarnir Ida Blom, prófessor emerita við Háskólann í Bergen, Judith M. Bennett, prófessor í sagnfræði við Háskólann í Suður-Kaliforníu, og Ellen Dubois prófessor í sagnfræði við UCLA.
Við hvetjum áhugasama fræðimenn til þess að senda inn tillögu að fyrirlestri innan málstofa og/eða hringborða. Tillögurnar, um það bil 300 orð, skal senda á netfang Kvennasögusafns Íslands, kona@bok.hi.is, rækilega merkt viðkomandi málstofu og nafni fræðimanns.

Tungumál ráðstefnunnar verða Norðurlandamálin (að vanda eru íslenska
og finnska undanskilin) og enska.

Skilafrestur er 15. nóvember 2007.