Skipulag námsins

Námið er 120 ECTS eininga nám á meistarastigi, þar af eru 75 ECTS í formi námskeiða og 45 ECTS í formi lokaritgerðar. Öll námskeið eru kennd í lotum. Námið hefst á haustmisseri og samanstendur fyrsta árið af kjarnaáföngum og valáföngum samanber kennsluáætlun.

Kennsluáætlun 2022-2023

Til að hægt sé að ljúka 75 ECTS á einu skólaári er kennt í lotum frá sumarlokum fram á mitt næsta sumar. Loturnar eru frá 1 ECTS upp að 8 ECTS og taka hálfa til fjórar vikur í senn. Vakin er sérstök athygli á því að vinnuálag fyrir hverja ECTS einingu nemur að jafnaði um 25-30 klukkustundum. Að jafnaði taka nemendur 2 ECTS einingar á viku sem jafngildir að lágmarki 50 klukkustunda vinnuálagi.

Eftir að námskeiðum lýkur, um mánaðamótin júni/júli, tekur 45 ECTS meistaraverkefnið við, en miðað við ofangreint vinnuálag samsvara 45 ECTS um 1,5 misseri. Valkvætt er hvort nemendur eru staðsettir á Vestfjörðum á meðan á vinnslu lokaverkefnis stendur. Lokaritgerð er skilað til prófdæmingar í upphafi vorannar næsta árs. Með þessu móti er hægt að ljúka meistaranáminu á 18 mánuðum. Ekki er gert ráð fyrir sumarleyfi sé þessi námshraði valinn. Einnig er hægt að skila ritgerð í apríl og tekur námið þá 21 mánuð.

Námið spannar vítt svið byggðafræðinnar, en nemendur geta sérhæft sig innan þess með valnámskeiðum og með efnisvali fyrir lokaritgerð. Námsmönnum stendur til boða að taka valnámskeið hjá öðrum háskólum, ef meistaranámsnefndin samþykkir.

Nemendur útskrifast frá Háskólanum á Akureyri með MA gráðu (Master of Arts).