Fólkið
Dr. Matthias Kokorsch er fagstjóri meistaranáms í sjávarbyggðafræði við Háskólasetur Vestfjarða. Matthias lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands í landfræði, kennsluréttindum í landfræði, félagsvísindum og kennslufræðum frá Háskólanum í Duisburg og Essen. Doktorsritgerð hans frá Háskóla Íslands ber titilinn „Mapping Resilience – Coastal communities in Iceland“ (Seigla íslenskra sjávarbyggða).
Rannsóknir Matthiasar snúa einkum að byggðaþróun og samfélagslegri seiglu í dreifbýli, formgerðarbreytingum á rótgrónum iðnaðarsvæðum og auðlindastjórnun í samhengi við réttlæti og ákvörðunartöku. Meðal nýlegra ritsmíða Matthiasar má nefna „Prosper or perish? The development of Icelandic Fishing villages after the privatisation of fishing rights“ og „Where have all the people gone? The limits of resilience in coastal communities.“ Einnig hefur Matthias gefið út greinar um fiskveiðistjórnun á Íslandi. Áður en hann hóf störf við Háskólasetur Vestfjarða starfaði Matthias við Thünen Institute of Rural Studies í Þýskalandi auk þess að kenna við Háskólann í Hanover.
Fagstjóri meistaranáms í sjávarbyggðafræðum hefur eftirfarandi hlutverk:
- Fagleg msjón með meistaranáminu, utanumhald og samræming námsskrár
- Tengiliður milli meistaranámsnefndar, starfsfólks Háskólaseturs og nemenda í sjávarbyggðafræðum
- Leggur til ráðningu nýrra kennara, leiðbeinenda og prófdómara við meistaranámsnefnd
- Greiðir fyrir samstarfi, hlúir að tengslaneti vegna námsins og heldur utan um kennarahópinn
- Svarar eða kemur áfram öllum spurningum er varða faglega þætti meistaranámsins
- Hefur yfirlit yfir námsframgang nemenda, bæði í námskeiðum og þegar kemur að vinnu við lokaritgerðir
- Hefur umsjón með námsmatsferli lokaritgerða, þar með talið kynningum (fyrirlestrum) og vörnum
Fjöldi kennara kemur að kennslu og leiðbeiningum í meistaranámsleiðunum Haf- og strandsvæðastjórnun og Sjávarbyggðafræði. Háskólasetrið leggur áherslu á að fá færustu sérfræðinga á sínu sviði til kennslu. Fagleg breidd þessara tveggja þverfræðilegu námsleiða er mikil og því mikilvægt að fá sérhæfða kennara til að sinna kennslunni. Með því fyrirkomulagi að fá stundakennara til að sinna kennslunni kynnast nemendur ekki aðeins sérhæfðu fagfólki heldur einnig breiðum og fjölbreytilegum hópi einstaklinga, með ólíkt tengslanet víða um heim, sem gera námið margbrotið og lærdómsríkt.
Árlega koma hingað nemendur víðsvegar að úr heiminum með fjölbreytta reynslu og ólíkan náms bakgrunn. Við hjá Háskólasetri Vestfjarða erum afar stolt af okkar fjölþjóðlega nemendahópi.
Leiðir nemenda að meistaranámi við Háskólasetrið eru afar ólíkar, sumir koma til Ísafjarðar að loknu grunnnámi á meðan aðrir hafa víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Þessi fjölbreytti bakgrunnur og þverfaglega færni nemenda auðgar námið á allan hátt. Fjölbreytt lífsreynsla og ólík sjónarhorn nemenda skapa líflegt námsumhverfi þar sem kennarar og nemendur miðla af eigin upplifun og fyrri reynslu.
Meistaranám við Háskólasetur Vestfjarða býður upp á sveigjanleika sem gefur nemendum tækifæri til að aðlaga námið að eigin þörfum. Fjölbreytt námskeið eru í boði og nemendur geta sótt um að fá einingar úr starfsnámi eða öðrum námskeiðum metnar. Skipulag námsleiðanna er þverfaglegt og undirbýr nemendur undir fjölbreytt störf að námi loknu.
Skapast hefur sú hefð að nemendur Háskólaseturs Vestfjarða útskrifast að á þjóðhátíðardag Íslendinga þann 17. júní við hátíðlega athöfn að Hrafnseyri við Arnarfjörð. Að loknu námi fara margir erlendis á meðan aðrir nýta menntun sína hérlendis og skjóta rótum á Íslandi. Hvað sem nemendur ákveða að gera að námi loknu þá fara þeir héðan með haldbæra menntun sem veitir þeim fjölbreytt tækifæri á alþjóðavettvangi.
Tölulegar upplýsingar um útskrifaða nemendur og atvinnumöguleika þeirra að námi loknu má finna í starfsskýrslu um starfsemi Háskólaseturs Vestfjarða. Einnig hefur Daniel Metzger útskriftarnemi frá árinu 2013 skrifað áhugavert blogg um tækifærin að loknu meistaranámi í Haf- og strandsvæðastjórnun.
Nemendafélagið Ægir er félag meistaranema í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða og má ætla að nemendur Sjávarbyggðafræða gangi inn í það.
Jötuninn Ægir er konungur hafsins í norrænni goðafræði, auk þess að vera þekktur fyrir að halda ásum miklar veislur. Ætlun nemendafélagsins er að veita innsýn í líf nemenda, auk þess að skapa tengsl milli nemenda og samfélagsins á Ísafirði og nágrenni.