Rannsóknarverkefni
Háskólasetur Vestfjarða hefur komið að einstökum rannsóknarverkefnum, oftast í samvinnu við rannsóknarstofnanir á svæðinu eða sem stuðningsaðili rannsóknarfólks.
Nýtingaráætlun strandsvæða er tilraunaverkefni sem Fjórðungssamband Vestfirðinga, Teiknistofan Eik á Ísafirði og Háskólasetur Vestfjarða stóðu að 2010-2014. Á þeim tíma hafði strandsvæðaskipulag á Íslandi aldrei verið unnið en þar sem gerð strandsvæðaskipulags heyrir lögformlega undir Skipulagsstofnun (The Icelandic National Planning Agency ) völdu samstarfsaðilarnir frekar að nefna verkefnið „Nýtingaráætlun strandsvæða“ og einskorðuðu sig við Arnarfjörð til að byrja með. Snemma árs 2014 var nýtingaráætlunin fyrir Arnarfjörð staðfest af þeim sveitarfélögum sem liggja að Arnarfirði. Umhverfisráðherra og forstjóri Skipulagsstofnunar voru viðstaddir athöfnina. Í þessu samhengi má svo nefna að Háskólasetrið átti fulltrúa í undirbúningsnefnd um landsskipulagsstefnu, enda er þar lögð rík áhersla á haf- og strandsvæðaskipulag.
Með tilkomu sjávarflóðarannsókna hjá Veðurstofu Íslands og starfsmanni staðsettum á Ísafirði gefst kjörið tækifæri til samstarfs. Háskólasetur Vestfjarða og Ísafjarðarbær ásamt Snjóflóðasetri Veðurstofunnar, sjávarflóðarannsóknarmanni hjá Veðurstofunni og Teiknistofunni Eik hafa hug á rannsóknarverkefni þar sem gerð yrði úttekt á sjávarflóðavá. Yrði úttektin hliðstæð þeim sem gerðar eru vegna snjóflóðahættu. Markmiðið er að spara eigendum fasteigna, tryggingarfélögum og bæjarfélögum útgjöld vegna skemmda af völdum fyrirsjáanlegra sjávarflóða. Verkefnið er ófjármagnað og liggur því í dvala.
Háskólasetur Vestfjarða er stofnaðili að Thematic Network on Arctic Fisheries and Aquaculture innan Norðurslóðaháskólans og vinnur með Thematic Network on Local and Regional Development in the North.