Fjölmenningarsetur Íslands

Fjölmenningarsetur Íslands hefur það hlutverk að greiða fyrir samskiptum fólks af ólíkum uppruna og efla þjónustu við innflytjendur sem búsettir eru á Íslandi. Í þessu sambandi hefur Fjölmenningarsetrið t.d. staðið fyrir ráðstefnu um innflytjendur á Íslandi og fyrir nýstárlegu rafþingi. Fjölmenningarsetur er stofnun á landsvísu, staðsett í Vestrahúsinu/Háskólasetri á Ísafirði.

Hafrannsóknarstofnun

Útibú Hafró er í Vestrahúsinu/Háskólasetri á Ísafirði. Þar vinna sjö starfsmenn, sem hafa einbeitt sér að veiðafærarannsóknum. Í stað þess að finna enn betri net og möskva, hafa starfsmenn útibús snúið sér að aðferðum, sem taka mið af atferli fiska, heyrn, lykt o.fl. til að lokka þá í gildrur með sem minstri eldsneytisnotkun. 

Kerecis

Kerecis er nýsköpunarfyrirtæki sem setti á fót rannsóknar- og þróunardeild í nýsköpunarsetri NMÍ/Háskólaseturs. Fyrirtækið er nú að flytja í eigið húsnæði á Ísafirði. Kerecis framleiðir lækningavörur og húðkrem úr fiskroði. Meðan áfram er unnið að vöruþróun og einkaleyfi er Kerecis einnig að undirbúa markaðssetningu.

Matís

Hjá útibúi Matis á Ísafirði hafa verðið um 3 starfsmenn, sem hafa m.a. sinnt þorskeldisrannsóknum. Útibúið er til húsa í Vestrahúsinu/Háskólasetri en er nú í endurskipulagningu.

Melrakkasetur

Melrakkasetrið var opnað árið 2010 í Súðavík. Langtímamarkmið þess er að safna saman á einn stað þekkingu, efni og hlutum sem tengjast melrakkanum í fortíð og nútíð. Á setrinu er sýning fyrir ferðamenn og unnið að rannsóknum á líffræði tegundarinnar og þróun sjálfbærrar náttúrulífs-ferðamennsku.

Minjavörður Vestfjarða

Hlutverk minjavarðar er alhliða fornleifavarsla á Vestfjörðum. Minjavörður leitast við að mynda tengsl og samstarf við aðrar stofnanir, fyrirtæki og aðra þá er kann að varða um málefni minjavörslunnar á svæðinu. Minjavörður Vestfjarða er t.d. samstarfaðili í NABO (North Atlantic Biocultural Organization) sem eru regnhlífasamtök margra rannsóknarstofnana og háskóla.

Náttúrustofa Vestfjarða

Náttúrustofa Vestfjarða er alhliða rannsóknar- og þjónustustofnun í náttúrufræðum á Vestfjörðum. Verkefni hennar eru öflun upplýsinga um náttúru Vestfjarða og að gera þær aðgengilegar. Náttúrustofa Vestfjarða er staðsett í Bolungarvík, á Hólmavik og á Bíldudal. Hún tekur að sér margvísleg verkefni á sínu sviði fyrir sveitarfélög, stofnanir og einkaaðila.

Rannsókna- og fræðasetur HÍ

Meginhlutverk Rannsókna- og fræðaseturs HÍ er að efla rannsókna- og fræðastarf Háskóla Íslands á Vestfjörðum í samvinnu við rannsóknastofnanir og háskóla. Setrið sinnir einkum rannsóknum á náttúru-, atvinnu- og menningarsögu Vestfjarða með áherslu á ferðamál. Rannsókna- og fræðasetrið, sem er með nokkra rannsóknarnema, er staðsettur í Bolungarvík.

Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa

Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa var stofnað í september 2016 og Jón Jónsson þjóðfræðingur hóf þá störf sem verkefnisstjóri hjá setrinu. Jón hafði áður starfað sem menningarfulltrúi Vestfjarða síðastliðin 9 ár. Rannsóknir í þjóðfræðiverða í öndvegi hjá setrinu og sérstök áhersla á miðlun og hagnýtingu þjóðfræðilegrar þekkingar. Aðsetur rannsóknasetursins er í Þróunarsetrinu á Hólmavík. 

Skógræktin

Skógræktin veitir ráðgjöf og framlög til skógræktenda, ræktar og hirðir um þjóðskóga og sinnir endurheimt birkiskóga. Sinnir rannsóknum innanlands og í samstarfi við aðrar þjóðir, aflar og miðlar þekkingu á skógrækt á Íslandi. Skógræktin er með starfstöðvar á 13 stöðum um allt land. Á Vestfjörðum eru starfstöðvar í Bjarnarfirði á Ströndum og í Vestrahúsinu á Ísafirði.

Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands

Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands er með sex starfsmenn og sinnir snjóflóðarannsóknum fyrir allt land um leið og það veitir þjónustu, ekki síst þegar hættuástand skapast. Snjóflóðasetrið fer með vöktun, skráningu, hættumat, rannsóknir og ráðgjöf fyrir allt landið. Snjóflóðasetrið er til húsa í Vestrahúsinu/Háskólasetri. 

Strandagaldur

Strandagaldur hefur byggt upp sýningar og söfn á þrem stöðum á Ströndum sem tengjast göldrum á Íslandi. Þessar sýningar og söfn hafa kallað á margvíslegar rannsóknir og bjóða upp á efni og aðstöðu til frekari rannsókna sem tengjast þjóðtrú Íslendinga fyrr og nú.