Öflugt rannsóknarumhverfi

Háskólasetur Vestfjarða vinnur náið með rannsóknarstofnunum á Vestfjörðum sem og utan þeirra. Starfsfólk Háskólaseturs sinnir ekki rannsóknum en meistaranemar við Háskólasetrið bæta árlega við þekkingu á sviði haf- og strandsvæðastjórnunar með lokaritgerðum sínum. Í meistaranáminu kenna virtir háskólakennarar sem koma víða að úr heiminum og skapa mikilvæg tengsl milli Háskólasetursins og eigin rannsóknarumhverfis.

Háskólasetur Vestfjarða er opið rannsóknarfólki og rannsóknarnemum, sem dvelja á Vestfjörðum vegna rannsókna sinna. Dæmi um slíkar rannsóknir, sem þegar hafa farið fram, má finna hér á síðunni. 

Útibú Hafrannsóknarstofnunar og Matís, Rannsóknarseturs Háskóla Íslands, Náttúrustofa Vestfjarða sem og ýmis fyrirtæki á Vestfjörðum stunda margvíslegar rannsóknir, einkum á sjávarútvegi og afurðum hans. Þar á meðal má nefna rannsóknir á veiðarfæratækni, fiskeldi, burðarþoli vistkerfa og umhverfis- og fjarðarannsóknir. Þessar rannsóknir tengjast allar helsta umfjöllunarefni meistaranáms Háskólasetursins í haf- og strandsvæðastjórnun.

Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands sinnir rannsóknum á ofanflóðum og er staðsett í sama húsnæði og Háskólasetur, líkt og flestar stofnanirnar sem nefndar eru hér að ofan. Fyrir vikið getur Háskólasetrið boðið upp á umhverfi þar sem rannsóknarfólk, gestakennarar og nemendur hittast og deila þekkingu sinni og reynslu.

Háskólasetur Vestfjarða vill auðvelda innlendu og erlendu rannsóknarfólki og rannsóknarnemum að tengjast vestfirskum málefnum á öllum sviðum. Háskólasetrið reynir eftir fremsta megni að tengja áhugasama við viðeigandi rannsóknarumhverfi á svæðinu. 

Rannsóknarverkefni

Háskólasetur Vestfjarða hefur komið að einstökum rannsóknarverkefnum, oftast í samvinnu við rannsóknarstofnanir á svæðinu eða sem stuðningsaðili rannsóknarfólks.  Hér til vinstri á síðunni má finna tengla á ýmis rannsóknarverkefni sem unnin hafa verið í samstarfi sem Háskólasetrið.

Nýtingaráætlun strandsvæða er tilraunaverkefni sem Fjórðungssamband Vestfirðinga, Teiknistofan Eik á Ísafirði og Háskólasetur Vestfjarða stóðu að 2010-2014. Á þeim tíma hafði strandsvæðaskipulag á Íslandi aldrei verið unnið en þar sem gerð strandsvæðaskipulags heyrir lögformlega undir Skipulagsstofnun (The Icelandic National Planning Agency) völdu samstarfsaðilarnir frekar að nefna verkefnið „Nýtingaráætlun strandsvæða“ og einskorðuðu sig við Arnarfjörð til að byrja með. Snemma árs 2014 var nýtingaráætlunin fyrir Arnarfjörð staðfest af þeim sveitarfélögum sem liggja að Arnarfirði. Umhverfisráðherra og forstjóri Skipulagsstofnunar voru viðstaddir athöfnina. Í þessu samhengi má svo nefna að Háskólasetrið átti fulltrúa í undirbúningsnefnd um landsskipulagsstefnu, enda er þar lögð rík áhersla á haf- og strandsvæðaskipulag.

Með tilkomu sjávarflóðarannsókna hjá Veðurstofu Íslands og starfsmanni staðsettum á Ísafirði gefst kjörið tækifæri til samstarfs. Háskólasetur Vestfjarða og Ísafjarðarbær ásamt Snjóflóðasetri Veðurstofunnar, sjávarflóðarannsóknarmanni hjá Veðurstofunni og Teiknistofunni Eik hafa hug á rannsóknarverkefni þar sem gerð yrði úttekt á sjávarflóðavá. Yrði úttektin hliðstæð þeim sem gerðar eru vegna snjóflóðahættu. Markmiðið er að spara eigendum fasteigna, tryggingarfélögum og bæjarfélögum útgjöld vegna skemmda af völdum fyrirsjáanlegra sjávarflóða. Verkefnið er ófjármagnað og liggur því í dvala.

Háskólasetur Vestfjarða er stofnaðili að Thematic Network on Arctic Fisheries and Aquaculture innan Norðurslóðaháskólans og vinnur með Thematic Network on Local and Regional Development in the North.