Ráðstefna um íslenska þjóðfélagið 2022

Ísafjörður býður ykkur velkomin!

Dagana 12.-14. maí 2022 verður 14. ráðstefnan um íslenska þjóðfélagið haldin á Ísafirði, undir yfirskriftinni „Samfélag og náttúra – stál í stál eða hönd í hönd?“

Vegagerð og virkjanir, kolefnisfótspor á lands- og heimsvísu, menntunarkröfur í breyttum heimi, áhrif umhverfis- og samfélagsbreytinga á ólíka þjóðfélagshópa, atvinnugreinar og mismunandi byggðir í landinu: Þemað vísar til viðfangsefna, sem hafa síðustu árin verið í brennidepli á Íslandi og ekki síst á Vestfjörðum. Þó að fréttir um heimsfaraldur hafi verið áberandi síðustu tvö ár þá eru málefni tengd þema ráðstefnunnar enn til staðar. Tveimur árum síðar eru enn fjölmörg deilumál óleyst.  Aukin meðvitund um loftslagsbreytingar hefur fjölþætt áhrif á samfélagið og breytt ástand vegna heimsfaraldursins sem nú geisar getur sett þessi málefni í annað og áhugavert samhengi.

Umfjöllunarefni sem tengjast þemanu eru fjöldamörg og þó sett sé yfirheiti og þema fyrir ráðstefnuna þá eru erindi úr öllum áttum velkomin. Hér gefst fræðafólki úr öllum greinum hug- og félagsvísinda kjörið tækifæri til að hittast, styrkja tengslanet sitt, koma rannsóknum sínum á framfæri og deila þeim með fræðasamfélaginu. 

Vegna samkomutakmarkana og óvissu höfum við hjá Háskólasetri Vestfjarða þurft að fresta ráðstefnunni í tvígang. Reynslan hefur sýnt okkur mikilvægi þess að sinna undirbúningi þegar nýgengi smita er sem hæst svo að við getum verið tilbúin þegar samkomutakmörkunum léttir eða þær rýmkaðar. Vonum að það gangi eftir.

Því hvetjum við áhugasama til að senda inn erindi - hér.

Þeir sem hafa áður sent inn erindi og hafa enn áhuga eru vinsamlegast beðnir um að senda erindin aftur inn í skilagluggann eða hafa samband í tölvupósti - sissu@uw.is.

Ágrip erinda þarf að berast eigi síðar en 28. febrúar 2022.

Ráðstefnan hefst á föstudagsmorgun klukkan 09:00 og verður skipulögð með þeim hætti að ráðstefnugestir geti nýtt áætlunarflug frá Reykjavík til Ísafjarðar á föstudegi og náð seinna flugi til Reykjavíkur á laugardegi, sbr. dagskrárdrög. 

Óformleg móttaka verður fyrir ráðstefnugesti sem kjósa að koma til Ísafjarðar á fimmtudeginum, klukkan 20:00. 

Við mælum eindregið með því að ráðstefnugestir lengi dvölina fyrir vestan um einn eða tvo daga og heilsi sumri í faðmi fjalla blárra. 

Flugáætlun föstudaginn 13. maí - RVK-IFJ: Brottför 07:45, lending 08:25.

Flugáætlun laugardaginn 14. maí - IFJ-RVK: Brottför 16:25, lending 17:05.

Sjáumst fyrir vestan í maí!

 ---

Conference on Icelandic Society 2022

The 14th conference on Icelandic Society will be hosted by the University Centre of the Westfjords during 12.-14. May 2022 under the topic:

Society and Nature – Head to head or hand in hand?

Call for papers: Deadline 28.02.2022. The conference will be held in Icelandic. Highly relevant topics can be given the opportunity to be presented in English. However, the sessions' language (discussion) will be Icelandic.

Further information on the conference is available in Icelandic or contact sissu@uw.is