Ráðstefna um íslenska þjóðfélagið 2020

Ísafjörður býður ykkur velkomin!

3. apríl 2020: Vegna samkomubanns af völdum COVID-19 hefur ráðstefnunni verið frestað um eitt ár og fer fram vorið 2021. Nánari upplýsingar verða tilkynntar síðar. Nýtt ágripakall verður sent út snemma á næsta ári en ágrip sem nú þegar hafa verið send verða geymd og geta gilt að ári liðnu.

 

14. Ráðstefnan um íslenska þjóðfélagið verður haldin á Ísafirði hjá Háskólasetri Vestfjarða dagana  24./25. apríl 2020 undir yfirskriftinni:

Samfélag og náttúra – stál í stál eða hönd í hönd?

Þemað vísar til viðfangsefna, sem hafa síðustu árin verið í brennidepli á Íslandi og ekki síst á Vestfjörðum. Með aukinni meðvitund um loftslagsbreytingar fær þemað nýtt vægi, umræðan breytist og það má ætla að það hafi áhrif á samfélagið. 

Vegalagningar og virkjanir, kolefnisfótspor á landsvísu og á heimsvísu, menntunarkröfur í breyttum heimi, áhrif breytinga á mismunandi þjóðfélagshópa, atvinnugreinar og á mismunandi byggðir í landinu, umfjöllunarefni sem tengjast þemanu eru fjöldamörg.

Þó að eitt þema sé tekið út og gert úr því yfirskrift, eru erindi úr öllum áttum velkomin. Hér gefst fræðafólki úr öllum greinum hug- og félagsvísinda kjörið tækifæri til að koma rannsóknum sínum á framfæri og deila með fræðasamfélaginu.

Hér með er kallað eftir erindum og skulu ágrip berast eigi síðar en 28. febrúar 2020.

Ráðstefnan verður skipulögð milli fluga. Hún hefst eftir lendingu morgunflugs á föstudegi og endar á réttum tíma fyrir brottflug kvöldflugs á laugardegi, sbr. dagskrárdrög. Við mælum þó með að lengja dvölina fyrir vestan um einn dag eða tvo og heilsa upp á sumarið hér í faðmi fjalla blárra.


Sjáumst fyrir vestan í apríl