National day´s Symposium
,,Hnattvæðing" er eitt þeirra hugtaka innan félagsvísindanna í dag sem mikið ber á og margt hefur verið skrifaðar um. Sumir líta hnattvæðinguna jákvæðum augum og telja hana einkennast af auknu verslunarfrelsi, opnari mörkuðum, meira ferðafrelsi og fjölþættari tæknivæðingu. Aðrir eru neikvæðari og líta á hana sem æ þéttriðnara net af vörum, þjónustu og fólki, sem teygir sig yfir lönd, ríki og álfur, og bindur þau saman í eina stóra heild. Hnattvæðingin er þá skoðuð sem nýtt, stórt og voldugt ,,svæði" sem beygir og sveigir lönd, ríki og samfélög undir sínar reglur, lög og venjur, og gerir þau öll lík hvort öðru og einsleit. Enn aðrir benda á, að hnattvæðingin hafi líka gert samfélögin margbreytilegri og mótsagnakenndari en áður var, þar sem heimsborgararnir trjóna á toppnum á meðan þeir ,,innfæddu" sitja eftir á botninum. Sumir höfundanna sjá heiminn sem eitt stjórnlaust kerfi sem sett hefur af stað þróun er valdið hefur margvíslegum hliðarverkunum sem ekki sé hægt að stoppa eða sjá fyrir endann á. Aðrir sjá heiminn í dag sem formlausa veröld án umgjörðar, valdamiðju, landamæra eða annarra hindranna. Hugtök eins og að vera ,,heima eða að heiman", að vera ,,staðbundinn eða hnattrænn", að vera ,,hefðbundinn eða nútímalegur", að vera ,,hér eða þar" o.s.frv. eru ekki jafn aðgreind og auðskilin eins og áður var. Áhrif hnattvæðingarinnar eru þess vegna miklu meiri og flóknari en okkur óraði fyrir.
Hvaða áhrif hefur hnattvæðingin á þjóð og þjóðernisstefnu í dag?
Sumir álíta að þjóð og þjóðernisstefna sé úrelt fyrirbæri og þess vegna á góðri leið með að hverfa af yfirborði jarðar. Að vera án þjóðerniskenndar, og hafa engin tilfinningaleg tengsl við tímabil eða svæði er ekki aðeins orðið auðveldara fyrir hvert okkar, heldur er það orðin brýn nauðsyn. Aðrir álíta, að þjóð og þjóðernisstefna sé mannleg tilfinning sem fari vaxandi í heiminum með hverjum deginum sem líður, eins og þjóðernisvakning sú sem riðið hefur yfir heiminn undanfarin ár ber vitni um. Enn aðrir álíta þjóðerni og þjóðernisstefnu vera veraldlega og mannvænlega vitundarstefnu byggða á lýðræðislegri sjálfstæðis- og jafnaðarstefnu. Að síðustu má nefna þá höfunda sem líta á hina svokölluðu nýju þjóðernisstefnu sem eina af fleiri hugmyndakerfum sem keppa um hylli fólksins. Ef þessi nýja þjóðernisstefna nær að blómgast, mun hún leiða til óstjórnar, ofbeldis og ójafnræðis.
Við höfum boðið mjög vel þekktum fyrirlesurum að koma á ráðstefnu okkar ,,Þjóð og hnattvæðing" hér á Hrafnseyri til þess að fjalla um þessi flóknu fyrirbæri. Fyrirlesararnir, sem koma frá ýmsum fagsviðum eins og t.d. sögu, stjórnmálafræði, mannfræði og Evrópufræðum, stunda rannsóknir sínar á Íslandi, í Danmörku, Englandi og Bandaríkjunum. Við erum þeirrar skoðunar að Ísland, og einkum Hrafnseyri, sé sérstaklega góður staður fyrir einmitt þessa ráðstefnu. Landið er vel á veg komið í hnattvæðingunni með fremur frjálsa verslulnarhætti og opinn markað. Alþjóðleg fyrirtæki stunda atvinnu sína í landinu og ung, framsækin og vaxandi fyrirtæki eru byrjuð að haslað sér völl á alþjóðamörkuðum. Tölvunotkun landsmanna er mjög útbreidd og íbúarnir voru þangað til nýverið mjög einsleitur hópur. Innflytjendur frá ýmsum löndum heims fóru að setjast hér að fyrir fáum árum. Hlutfallslega eru þeir fjölmennastir á Vestfjörðum (allt upp í 40% íbúanna í sumum þorpunum). Þar að auki má nefna, að ein af mikilvægustu spurningunum í nánustu framtíð mun vafalaust verða hvort Ísland eigi að ganga í Evrópubandalagið eða ekki.
Landið hlaut sjálfstæði sitt frá Dönum árið 1944 og þjóðhetja Íslands, Jón Sigurðsson, fæddist á Hrafnseyri. Það er því augljóst, að þessi ráðstefna er sérstaklega áhugaverð og mikilvæg fyrir nemendur sem stunda nám í hinum ýmsu félagsgreinum, auk þess sem hún ætti að vera sérstaklega áhugaverð fyrir Vestfirðinga sem og aðra Íslendinga.