Þátttakendur

Árni Heimir Ingólfsson er tónlistarfræðingur og listrænn ráðgjafi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann hefur ritað nokkrar bækur um tónlist, meðal annars Tónlist liðinna alda - Íslensk handrit 1100-1800 sem kom út fyrir síðustu jól og er tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis, og Saga tónlistarinnar, sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2016. Þá hefur hann tvisvar hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir geisladiska með tónlist úr fornum íslenskum handritum. Árni Heimir hefur komið fram á fjölda tónleika sem píanó- og semballeikari, og hefur haldið fyrirlestra um tónlist víða um heim. Hann hefur gegnt stöðu gestaprófessors við Listaháskóla Íslands og er nú gestafræðimaður við Yale-háskólann í Bandaríkjunum.

Birna Bjarnadóttir lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands (2003) í fagurfræði Guðbergs Bergssonar og þjónaði um árabil sem Chair of Icelandic við íslenskudeild Manitóbaháskóla í Winnipeg (2003‒2015). Um þessar mundir vinnur hún að verkefnum við Háskóla Íslands á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Hún hefur birt fræðirit, skáldskap og greinar beggja vegna hafs og hefur nýlega ritstýrt alþjóðlega greinasafninu Heiman og heim. Sköpunarverk Guðbergs Bergssonar (2019) og tvímála ljóðasafni Stephans G. Stephanssonar, Two Lands, One Poet (2019) ásamt Mooréu Gray. Birna stýrir jafnframt „Leiðangrinum á Töfrafjallið“ (2013‒2020), samstarfsverkefni lista- og fræðimanna, og leiðir útgáfufélagið Hina kindina.

Eiríkur Örn Norðdahl er rithöfundur, þýðandi og ljóðskáld. Hann hefur gefið út sjö skáldsögur, síðasta Brúna yfir Tangagötuna, sjö ljóðabækur, tvö ritgerðasöfn og eina matreiðslubók. Fyrir skáldsöguna Illsku hlaut Eiríkur Hin íslensku bókmenntaverðlaun, Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, frönsku Transfuge-verðlaunin (sem hann hlaut aftur fyrir Heimsku) og var auk þess tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, Medici-verðlaunanna og Prix Meilleur Livre Étranger. Fyrir ljóðabókina Óratorrek hlaut hann menningarverðlaun DV.

Eiríkur hefur verið staðarskáld í Vatnasafninu í Stykkishólmi, í boði Stykkishólmsbæjar og listasjóðsins Art Angel, sem og í Villa Martinson í Jonsered í Svíþjóð (2015) og í AIR Krems í Austurríki (2018). Árið 2010 hlaut Eiríkur viðurkenningu úr Fjölíssjóði. Eiríkur var Bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2014‒2015. Hann hefur hlotið aukaverðlaun Ljóðstafs Jóns úr Vör, sérstaka viðurkenningu á kvikljóðahátíðinni Zebra Poetry Film Festival í Berlín og Rauðu fjöðrina, erótísk stílverðlaun lestrarfélagsins Krumma.

Guðfinna M. Hreiðarsdóttir er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík (1986). Hún lauk BA- prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1991, og MA-prófi í hagnýtri menningarmiðlun við sama skóla 2009. Hún hefur starfað sjálfstætt við ýmiskonar ritstörf, einkum um sagnfræðileg efni, en einnig um tíma sem blaðamaður. Guðfinna hefur einnig sett upp fjölda sýninga þar sem viðfangsefnið er fortíðin og sagan frá ýmsum sjónarhornum. Hún hefur átt sæti í stjórn Sögufélags Ísfirðinga frá árinu 2000 og verið formaður stjórnar frá árinu 2006. Guðfinna starfar nú sem skjalavörður á héraðsskjalasafninu á Ísafirði.

Hermann Stefánsson er rithöfundur. Hann hefur sent frá sér fjölda bóka, síðast smásagnasafnið Dyr opnast (2016) og skáldsöguna Bjargræði (2016), og rær nú á slóðir spíritismans á Íslandi.

Ingi Björn Guðnason er bókmenntafræðingur búsettur á Ísafirði. Hann hefur fjallað um íslenskar nútímabókmenntir í útvarpi, tímaritum og á vefsíðum. Meistaraprófsritgerð hans í almennri bókmenntafræði fjallaði um sveitasöguþríleik Jóns Kalmans Stefánssonar en undanfarin ár hefur hann fjallað um verk Jóns Kalmans á ýmsum vettvangi. Ingi Björn er verkefnastjóri við Háskólasetur Vestfjarða en hefur einnig starfað sem dagskrárgerðarmaður í útvarpsþættinum Víðsjá á Rás 1 og á Gljúfrasteini ‒ húsi skáldsins í Mosfellsdal.

Ingunn Ósk Sturludóttir útskrifaðist úr Söngskólanum í Reykjavík árið 1987, stundaði framhaldsnám í London um tveggja ára skeið hjá Valerie Heath-Davies og Sigríði Ellu Magnúsdóttur, og lauk prófi úr úr óperudeild Sweelinck tónlistarháskólans í Amsterdam 1992. Vorið 1995 flutti hún vestur og settist að í eyjunni Vigur og síðar á Ísafirði. Haustið 1995 hóf hún söngkennslu við Tónlistarskóla Ísafjarðar og hefur kennt þar æ síðan með hléum. Árið 2013 lauk Ingunn kennaranámi frá Lichtenberger Institut für angewandte Stimmphysiologie. Hún hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi, meginlandií Evrópu, Norður-Ameríku, og komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Hún hefur tekið virkan þátt í tónlistar- og menningarlífi á Ísafirði, m.a. í flutningi á Messíasi og Sálumessu Mozart með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og Hátíðarkór Tónlistarskólans. Hún fór með hlutverk abbadísarinnar í Söngvaseiði sem settur var upp af Tónlistarskólanum og Litla Leikklúbbnum. Ingunn er varaformaður Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og situr í Fagráði tónlistarskóla. Undanfarin ár hefur Ingunn einbeitt sér að kennslu og gegnir nú starfi skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar. 

Johnny Lindholm er cand.mag. í norrænum fræðum frá Kaupmannahafnarháskóla og er að skrifa doktorsritgerð við Háskóla Íslands um myndmál í sálmum Ólafs Jónssonar á Söndum. Á undanförnum árum hefur hann unnið við fjölmörg verkefni, m.a. þýðingar úr forníslensku og fornþýsku, kennslu og orðabókargerð. Áður en ritgerðarvinnan hófst vann Johnny við ýmis verkefni tengd handritamenningu og varðveislu skáldskapar Ólafs, má þar nefna verkefnin: Menningarlegt og félagslegt hlutverk íslenskra kvæða- og sálmahandrita eftir siðskipti (2010–2012) og Kvæðabók sr. Ólafs Jónssonar á Söndum: Greining, samhengi, dreifing (2012–2015).

Þröstur Helgason er doktor í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hann er höfundur ritanna Einkavega (2003), Birgir Andrésson. Í íslenskum litum (2010) og Opna svæðið. Tímaritið Birtingur og íslenskur módernismi (2020). Hann hefur birt fjölda greina og bókakafla um samtímabókmenntir og -menningu og auk þess um árabil sinnt háskólakennslu um sama efni, menningarblaðamennsku, bókmenntagagnrýni og ritstjórnarstörfum. Hann er dagskrárstjóri Rásar 1 á RÚV.