Fyrirlesarar á málþingingu Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða

Andrea Harðardóttir kennir sögu við Menntaskólann á Ísafirði og er í diplómanámi í safnakennslu í HÍ. Hún hefur starfað við verkefnin ,,Vestfirðir á miðöldum“ og ,,Sumarkvöld í Neðstakaupstað“, var um tíma starfsmaður á Fornleifastofnun Íslands á Vestfjörðum og hefur samið og flutt erindi á málþingum og bókmenntavökum m.a. á vegum Edinborgarhússins á Ísafirði, bókasafnsins á Ísafirði og málþings á Patreksfirði til minningar um Jón úr Vör. Auk þessa hefur Andrea tekið þátt í málþingum og ráðstefnum á svæðinu um málefni Hornstranda og Hornstrandafriðlandsins, og samið texta fyrir nokkrar sögusýningar á svæðinu, m.a. á vegum Byggðasafns Vestfjarða.

Andrew McGillivray er lektor við Department of Rhetoric, Writing and Communication í Winnipegháskóla. Bók hans, Influences of Pre-Christian Mythology and Christianity on Old Norse Poetry: A Narrative Study of Vafþrúðnismál, birtist haustið 2018 hjá Western Michigan University. Andrew hefur ferðast um Vestfirði með Akurskóla íslenskudeildar Manitóbaháskóla (The Icelandic Field School) og er hugfanginn af áhrifum þeirra á skáldskap, sem og innra líf ferðalangsins. 

Ármann Jakobsson er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Hann hefur sent frá sér fræðibækurnar Í leit að konungi (1997), Staður í nýjum heimi (2002), Tolkien og Hringurinn (2003), Illa fenginn mjöður (2009), Nine Saga Studies (2013), A Sense of Belonging (2014), Íslendingaþættir: saga hugmyndar (2014) og The Troll Inside You (2017). Enn fremur skáldverkin Fréttir frá mínu landi (2008), Vonarstræti (2008), Glæsir (2011), Síðasti galdrameistarinn (2014), Brotamynd (2017) og Útlagamorðin (2018). Auk þess hefur hann ritstýrt bæði greinasöfnum og fræðilegum útgáfum, m.a. Morkinskinnu í tveimur bindum á vegum Hins íslenska fornritafélags (2011) og The Routledge Research Companion to the Medieval Icelandic Sagas (2017).

Ásta Kristín Benediktsdóttir er íslenskufræðingur, doktorsnemi í íslenskum nútímabókmenntum og sjálfstætt starfandi prófarkalesari. Meistararitgerð hennar frá árinu 2010 fjallaði um frásagnaraðferð í
verkum Jakobínu Sigurðardóttur en doktorsrannsóknin er um skáldverk eftir Elías Mar. Ásta ritstýrði árið 2017, ásamt öðrum, greinasafninu Svo veistu að þú varst ekki hér: Hinsegin saga og sagnfræði á Íslandi og þemahefti Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands, um hinsegin rannsóknir. Þessa dagana leggur hún lokahönd á doktorsritgerðina, sinnir stundakennslu í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands og vinnur auk þess að verkefninu „Hinsegin huldukonur“ sem miðar að því að safna heimildum um hinsegin konur á Íslandi 1700–1960 og gera þær aðgengilegar fyrir almenning.

Birna Bjarnadóttir lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands (2003) í fagurfræði Guðbergs Bergssonar og þjónaði um árabil sem Chair of Icelandic við íslenskudeild Manitóbaháskóla í Winnipeg (2003‒2015). Hún hefur birt fræðirit, skáldskap og greinar beggja vegna hafs, er ritstjóri Kind-útgáfu og stýrir „Leiðangrinum á Töfrafjallið“ (2013‒2020), samstarfsverkefni lista‒ og fræðimanna. Um þessar mundir vinnur hún einnig að verkefnum á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Háskóla Íslands, þ.á m. ritstjórn bókarinnar Heiman og heim, greinasafns um skáldskap og þýðingar Guðbergs Bergssonar eftir innlenda og erlenda rithöfunda, þýðendur og fræðimenn.            

Christopher Crocker lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2016 og hefur verið stundakennari við bæði Manitóbaháskóla og Winnipegháskóla. Um þessar mundir tekur hann þátt í þverfaglegu verkefni á vegum fötlunarfræði við Háskóla Íslands. Þýðingar hans á Þulum Theodóru Thoroddsen og Flugum Jóns Thoroddsen munu birtast 2019 á vegum Kind‒útgáfu. 

Dustin Geeraert lauk doktorsprófi í enskum bókmenntum (2016) frá  Manitóbaháskóla með ritgerð sinni  Medievalism and the Shocks of Modernity: Rewriting Northern Legend from Darwin to World War II. Hann hefur nýlokið við að ritstýra sérstöku hefti bókmenntatímaritsins Scandinavian-Canadian Studies. Nýlega hefur hann einnig ritstýrt, ásamt Christopher Crocker, bókinni Medieval Legacies, Modern Lenses. Hann hefur birt greinar í The Journal of the William Morris Society, The Lovecraft Annual, og Comitatus: A Journal of Medieval and Renaissance Studies, og er einn af greinarhöfundum bókarinnar From Iceland to the Americas: Vinland and Historical Imagination, sem er væntanleg.  

Gunnar Þorri Pétursson er þýðandi og bókmenntafræðingur sem einkum hefur fjallað um rússneskar bókmenntir og þróun nútímabókmenntafræði á Íslandi. Nýverið kom út þýðing hans og Ingibjargar Haraldsdóttur á skáldsögunni Hinir smánuðu og svívirtu eftir Fjodor Dostojevskí og væntanleg er Bakhtínskí búmm: Um ris og fall Míkhaíls Bakhtíns í fræðilegri umræðu á Íslandi í ritröðinni Studia Islandica. Gunnar Þorri er BA í rússnesku og MA í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og stundaði skiptinám í Sankti Pétursborg, Moskvu og Helsinki. Á undanförnum árum hefur hann sinnt kennslu við Háskólann á Bifröst, Háskóla Íslands og Háskólasetur Vestfjarða.

Ingi Björn Guðnason er bókmenntafræðingur búsettur á Ísafirði. Hann hefur fjallað um íslenskar nútímabókmenntir í útvarpi, tímaritum og á vefsíðum. Meistaraprófsritgerð hans í almennri bókmenntafræði fjallaði um sveitasöguþríleik Jóns Kalmans Stefánssonar en undanfarin ár hefur hann fjallað um verk Jóns Kalmans á ýmsum vettvangi. Ingi Björn er verkefnastjóri við Háskólasetur Vestfjarða en hefur einnig starfað sem dagskrárgerðarmaður í útvarpsþættinum Víðsjá á Rás 1 og á Gljúfrasteini ‒ húsi skáldsins í Mosfellsdal.

Þórunn Sigurðardóttir er Dr.phil. frá Háskóla Íslands. Hún starfar sem rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rannsóknir Þórunnar eru á sviði handrita- og textafræði og 17. og 18. aldar bókmennta. Þórunn hefur birt greinar í innlendum og erlendum fræðiritum og gefið út forna texta, t.d. Hugvekjur eftir Johann Gerhard og Hagþenki eftir Jón Ólafsson úr Grunnavík. Bók hennar Heiður og huggun. Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld sem kom út árið 2015 hlaut bæði Fjöruverðlaunin og Menningarverðlaun DV í flokki fræðirita. Nýverið kom út Bókmenntasaga Jóns Ólafssonar úr Grunnavík sem Þórunn sá um ásamt Guðrúnu Ingólfsdóttur.